140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér í dag hafa margoft komið fram áhyggjur þingmanna yfir einmitt þessum valdatilflutningi sem margir hafa talað um.

Í sambandi við bls. 4 í frumvarpinu, sem hv. þingmaður nefndi áðan og vitnaði réttilega í þau orð að það þurfi að efla greiningar, áætlanagerð og samhæfingu, tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði. Það er vitanlega óskiljanlegt að þetta hafi ekki verið gert fyrst ráðuneytið var búið til á annað borð.

Hinu er aftur á móti nauðsynlegt að velta fyrir sér: Ef þessi verkefni fara yfir í fjármálaráðuneytið, er þá ekki að sama skapi nauðsynlegt að gera þessa hluti þar? Ég ímynda mér að starfsmenn fjármálaráðuneytisins, eins góðir og þeir eru, hafi býsna mikið á sinni könnu. Það hlýtur því að þurfa að bæta við starfsfólki þar til að geta sinnt þeim verkefnum sem hér eru talin upp og kvartað í raun yfir að þurfi að ráðast í ef þetta ráðuneyti á áfram að vera við lýði. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé þeirrar skoðunar að öll sú fyrirhöfn sem hefur verið dregin upp með óskaplega skrýtnum hætti sé ekki til staðar þó að verkefnin fari yfir í fjármálaráðuneytið.

Ég var líka að velta því fyrir mér þegar ég hlustaði hér frammi á ræðu þingmannsins og hann kom inn á það í lokin að svona mikil samþjöppun á valdi eða samþjöppun á ráðuneytum, eins og hér er verið að boða, leiði til þess að hin pólitíska yfirsýn minnki hugsanlega og þar af leiðandi verði embættisleg yfirsýn — ég er ekkert að segja að hún sé endilega slæm — (Forseti hringir.) meira á kostnað þeirrar pólitísku stefnumörkunar sem hlýtur að þurfa að fara fram í ráðuneytinu.