140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar verið var að ræða lög um Stjórnarráð Íslands barðist stjórnarandstaðan mjög fyrir því að Alþingi fengi áfram að koma að málefnum sem snertu það, þ.e. skipan Stjórnarráðsins og uppbyggingu þess. Þess vegna var sett inn sú breyting að forsætisráðherra yrði að leggja fram þingsályktunartillögu um þau málefni sem snertu Stjórnarráðið, um skipan ráðuneyta, um málaflokka sem heyra þar undir o.fl., þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki viljað það.

Nú erum við með þingsályktunartillögu og hafa verið umræður hér í allan dag um efni hennar, m.a. eitt atriði sem snertir flutning Hafrannsóknastofnunar eða maður veit það ekki, það er svona talað í kringum það að til standi að flytja Hafró yfir í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þeirri spurningu hefur hins vegar ekki verið svarað í umræðunum hvort það standi til eða ekki.

Hvað finnst hv. þingmanni um það að við skulum vera hér að ræða þingsályktunartillögu í ljósi þess að löggjafinn lýsti því yfir á sínum tíma, með því að gera breytingar á frumvörpum um Stjórnarráðið frá núverandi ríkisstjórn, og hefur ítrekað á þessu kjörtímabili sýnt vilja til að hafa áhrif á þetta? Hvað finnst hv. þingmanni um að við skulum vera í þessari umræðu og að á engan hátt sé hægt að skýra út hvað standi nákvæmlega til, hvaða stofnanir eigi að flytjast á milli, hvað verkefni eigi að flytjast á milli, og engin vinna virðist hafa verið unnin áður en þessi þingsályktunartillaga var lögð fram? Er þetta boðlegt? Ég ítreka aftur: Er þetta boðlegt í ljósi þess að þingið hefur ítrekað á þessu kjörtímabili lýst yfir vilja sínum til að hafa áhrif á það hvernig Stjórnarráðið er mótað og hvernig verkefnum er skipt innan þess?