140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er náttúrlega einfalt, þessi vinnubrögð eru ekki boðleg.

Ég vek athygli á því að fyrir liggja mál sem virkilega þarfnast úrlausnar í þjóðfélagi okkar. Við þurfum að auka verðmæti, við þurfum að vinna á atvinnuleysinu og það þarf að taka á vanda heimila og fyrirtækja þegar kemur að skuldamálum. Hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera? Hún er aftur að hræra í Stjórnarráðinu. Þegar hún hefur ekki getað breytt verkefnum hefur hún breytt nöfnum bara til þess að hægt sé að eyða peningum í eitthvað. Þetta er auðvitað ekki boðlegt.

Hv. þingmaður er búinn að taka þessa umræðu ásamt öðrum í allan dag og við vitum ekki enn klukkan tíu að kvöldi hvar Hafrannsóknastofnun verður. Ætli einhver viti það? Það er spurning og ef einhver veit það hver er þá sá sem veit það? Eru það kannski bara oddvitar ríkisstjórnarflokkanna? Ætli við getum ekki slegið því föstu, virðulegi forseti, að þeir séu líklegastir til þess og ætli við getum ekki líka slegið því föstu að aldrei hafi verið meira foringjaræði í íslenskum stjórnmálum en núna? Þrátt fyrir allt talið um samræðustjórnmál, lýðræðisvæðingu og hvað þessi fallegu hugtök nefnast stöndum við hér, klukkan er rúmlega tíu, og menn vita ekki enn hvað felst í þessari þingsályktunartillögu og menn vita ekki enn hvar Hafrannsóknastofnun á að vera þrátt fyrir að ítrekað hafi verið spurst fyrir um það í dag.