140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað þessu með afgerandi hætti en ég hef verið að velta því fyrir mér eins og hv. þingmaður hvað búi að baki slíkum ákvörðunum. Ég held hins vegar að ákvörðunin um breytingarnar á Stjórnarráðinu sem gerðar voru 2010 og 2011 hafi verið tekin með mjög stuttum fyrirvara.

Hugsanlega hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra síðan verið að leita að eina kosningaloforðinu sem hann ætti eftir að svíkja, það er möguleiki. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir hér í dag liggja fyrir samþykktir hjá Vinstri grænum um að halda ekki í þessa vegferð, það gæti verið skýring, ég veit það ekki. En ég hef ekki fundið neinar aðrar skýringar. Hæstv. ráðherrar hafa haldið því fram að þeir hafi fullt af gögnum sem sýni fram á kosti þessarar vegferðar en þeir hafa ekki lagt þau fram í tengslum við framlagningu þessa máls, þannig að það liggur ekki fyrir.

Ástæðan fyrir því að ég tala hér í dag, og líka þegar við ræddum fyrri breytingar á Stjórnarráðinu, er sú að ég hef verið talsmaður þess að skoða það að hafa aðstoðarráðherra. Mér fannst ágætur samhljómur um það þó að ekki væru allir sammála því og auðvitað vilja menn ræða fyrirkomulagið á því. Þetta hefur ekkert með einstaklingana að gera en ég held hins vegar að álagið á marga ráðherra sé orðið gífurlega mikið og hættan er sú að þá færist völdin að einhverjum hluta til embættismanna. Ég ætla ekkert að leggja mat á það hvort það er vont eða gott, ætla ekki að halda neinu fram um það. Auðvitað vinnur gott fólk í ráðuneytunum. Ég ítreka að þetta hefur ekkert að gera með þær persónur sem sinna ráðherradómi á hverjum tíma, heldur er þetta bara það umfangsmikið (Forseti hringir.) að það er ekki fyrir nokkurn mann að sinna þessu.