140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að ég styð ekki þá breytingu að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og búa til úr því atvinnuvegaráðuneyti. En hv. þingmaður þekkir vel til sveita, til landbúnaðarins og samtaka bænda vítt og breitt um landið. Ég vil inna hann eftir því hver hann telur að sé afstaða bænda og félaga bænda vítt og breitt um landið til að fara í þessar stjórnsýslubreytingar og gera þær að jafnmiklu áhersluefni og hæstv. forsætisráðherra hefur gert. Það er hárrétt hjá þingmanninum að forsætisráðherra hefur gert þetta að alveg sérstöku áhersluefni í allri tíð þessarar ríkisstjórnar og lagt á þetta mikla áherslu.

Hver telur hv. þingmaður að sé afstaða bænda almennt til þessara áherslna forsætisráðherra?