140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg, og fór yfir það í ræðu minni áðan, að samtök bænda, Bændasamtök Íslands, samtök búgreina, búnaðarfélög, Samtök ungra bænda, sláturleyfishafar og allir aðilar í landbúnaði hafi lagst gegn þeim breytingum sem hér er verið að ræða.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hæstv. forsætisráðherra hefur haft það sem gríðarlega mikilvægt stefnumál að ná þessu máli í gegn á kjörtímabilinu, þrátt fyrir að menn hafi varað við því að þetta mundi veikja stöðu landbúnaðarins og sjávarútvegs á viðkvæmum tímum í alþjóðasamningum.

Það sem vekur hins vegar hjá manni furðu er hvers vegna hv. þingmaður og formaður Vinstri grænna, sem nú er tekinn við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, hefur gleymt þeirri taug sem hann hefur í sveitina. Hann kom inn á þing sem ungur maður, eins og sá sem hér stendur, og þekkti til stöðu landbúnaðarins. (Forseti hringir.) Af hverju ver hv. formaður Vinstri grænna ekki stöðu landsbyggðarinnar og landbúnaðarins (Forseti hringir.) og samþykkir að leggja fram tillögu sem gengur þvert gegn öllu sem allir aðilar í þessari atvinnugrein hafa talað um?