140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað eitt af því sem nefnt hefur verið í umræðunni í dag. Ég hef fylgst vel með umræðunni og meðal annars ræðu hæstv. umhverfisráðherra sem fjallaði um hvað hún teldi að væri auðlind. Auðlind getur verið mjög margt og það er algjörlega klárt að landið okkar er auðlind og tún bænda geta jú flokkast sem ákveðin auðlind. Fjalllendi er auðlind, af hverju skyldu ekki tún bænda vera auðlind líka? Maður hefur séð það að í þessu máli virðist ekkert vera heilagt.

Það er hins vegar kjarni málsins að Alþingi hefur ítrekað sýnt það á þessu kjörtímabili að það vill hafa áhrif á hvernig málum er háttað innan Stjórnarráðsins, hvaða málaflokkar falla undir viðkomandi ráðuneyti, en því hefur á engan hátt verið svarað hér í dag hvernig málaflokkum verður raðað niður ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt. Það gengur þvert gegn allri umræðu um málefni Stjórnarráðsins, í það minnsta á þessu (Forseti hringir.) kjörtímabili svo ekki sé farið lengra aftur í tímann.