140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, ég hefði haldið að verkefnin væru ærin og að það væru það stór verkefni sem þurft hefðu úrlausnar við á þessu kjörtímabili að við þyrftum ekki að horfa upp á að verið væri að hringla í Stjórnarráðinu tvisvar á ári. Ég hefði haldið að ef ríkisstjórnin hefði beitt sömu kröftum í til að mynda atvinnuuppbyggingu, byggðamál og úrlausn skuldavanda heimilanna væri staðan kannski önnur. En þetta lýsir forgangsröðuninni og ef rétt reynist verðum við komin í níu þingmál áður en kjörtímabilið er á enda, ekki nema hæstv. forsætisráðherra ætli að bæta í á lokasprettinum og kannski kemst hún á annan tuginn. Það verða þá eftirmæli ríkisstjórnarinnar: Tíu (Forseti hringir.) stjórnarráðsbreytingar á einu kjörtímabili. (Forseti hringir.) Geri aðrir betur. (Gripið fram í: … forsætisráðherra …)