140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er farið að síga nokkuð á seinni hluta þessarar umræðu og hafa þingmenn rætt marga fleti þessara mála. Þó hefur einkennt umræðuna að töluvert vantar upp á að nauðsynlegar og mikilvægar upplýsingar liggi fyrir sem ættu með réttu að vera grundvöllur umræðu af þessu tagi. Við, margir þingmenn stjórnarandstöðunnar, gerðum athugasemdir við það snemma í dag að þessar upplýsingar hefðu átt að fylgja þingsályktunartillögunni í upphafi. Vísað er til þess í greinargerð, og reyndar í ræðum ráðherra, að alls konar upplýsingar og vinnugögn og þess háttar séu til. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talar um að hann sé með möppustafla hjá sér með ýmsum upplýsingum um þetta.

Eitthvað af þeim upplýsingum hefði að mínu mati átt að fylgja með þessari þingsályktunartillögu, þær eru nauðsynlegur grunnur til þess að við getum rætt þessi mál á grundvelli staðreynda frekar en á grundvelli getgátna, sem hefur því miður verið raunin í þessari umræðu. Slík vinnubrögð ber að gagnrýna en ég vildi nú í síðari ræðu minni við þessa umræðu láta það koma fram að á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fær málið væntanlega til meðferðar þegar þessari umræðu lýkur, verður að sjálfsögðu kallað eftir öllum þeim gögnum sem við erum að tala um, sem vísað er til með beinum eða óbeinum hætti í greinargerð og ræðum ráðherra. Þar á ég við alls konar greiningar sem sagt er að gerðar hafi verið, greiningarvinnu, skýrslur, álitsgerðir og hvers konar skrifleg gögn önnur sem skipt geta máli og liggja til grundvallar þessari þingsályktunartillögu, það er mjög mikilvægt að fá það allt fram.

Það er líka mjög mikilvægt að fá upplýsingar, og þá á ég við nákvæmar upplýsingar, ekki almenn orð, um það samráð sem á að hafa legið til grundvallar þessari tillögugerð, hvað þeir aðilar sem leitað var samráðs við sögðu, hver þeirra sjónarmið voru, hvort þeir skiluðu einhverju skriflega eða hvort fram komu munnleg sjónarmið sem ef til vill er hægt að finna í fundargerðum samráðshópa sem væntanlega verður möguleiki á að kynna sér í vinnu nefndarinnar.

Það er líka augljóst að kalla verður eftir kostnaðarmati eða kostnaðaráætlun vegna þessara tillagna því að ekki fylgir það með tillögunni sjálfri. Kostnaðarmat og kostnaðarálit þarf að fara fram á meðan á vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stendur og það er auðvitað ótækt að samþykkja þetta mál eða afgreiða það án þess að búið verði að leggja í vinnu við kostnaðarmat eða gerð kostnaðaráætlana um það. Þá er nauðsynlegt að fram komi nákvæmari upplýsingar um reynsluna af þeim ráðuneytabreytingum sem þegar hafa átt sér stað á kjörtímabilinu, hver kostnaður við einstaka þætti er og hver hugsanlegur sparnaður er af einstökum aðgerðum í því sambandi. Vísað hefur verið til ákveðinna kostnaðarþátta í umræðunni og verður auðvitað kallað eftir upplýsingum um þá. Þær upplýsingar liggja væntanlega fyrir og mun nefndin að sjálfsögðu krefjast þess að fá aðgang að þeim í umræðunni.

Það er líka nauðsynlegt að meta árangurinn að því marki sem hægt er, það er reyndar það skammt liðið frá því að stærstu breytingarnar tóku gildi að kannski er erfitt að leggja mat á hinn faglega árangur eða afleiðingar þess að farið var út í þá stóru sameiningu sem birtist annars vegar í velferðarráðuneytinu og hins vegar í innanríkisráðuneytinu. Ég er þeirrar skoðunar að þar sé ekki bara um að ræða jákvæða reynslu heldur líka víti til að varast.

Hæstv. forseti. Að lokum hljótum við að kalla eftir því að fram komi áætlanir um framkvæmd breytinganna fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þ.e. nákvæmari útlistun á því hvaða verkefni verða flutt og hvert, hvaða verkefni á sviði auðlindamála munu fylgja með til umhverfisráðuneytis, svo dæmi sé tekið, og hvernig útfærslan verður varðandi einstakar stofnanir og þess háttar. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að þessar upplýsingar verða að koma fram hið fyrsta, liggi þær ekki fyrir nú þegar, (Forseti hringir.) því að eins og stendur í tillögunni sjálfri er ætlunin að (Forseti hringir.) hún taki gildi í byrjun september á þessu ári.