140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir hefur verið gagnrýnd nokkuð fyrir það hversu rýr hún er og hversu lítið er um haldbæran rökstuðning fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til, hversu lítið er fjallað um áhrif þeirra o.s.frv. Mig langar aðeins að fara ofan í 2. kaflann og spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeim rökstuðningi sem þar kemur fram um reynsluna af nýafstöðnum sameiningum ráðuneyta en fjölmörg þingmál hafa snúist um Stjórnarráðið og breytingar á því eins og hv. þingmaður rakti hér áðan.

Hér kemur meðal annars fram, með leyfi herra forseta:

„Betri nýting á fjármunum hefur leitt til aukins sveigjanleika til þess að mæta t.d. stefnumörkunarverkefnum og áherslum ríkisstjórna hverju sinni […] sem gefur þeim möguleika á að takast á við fjölþættari verkefni en áður. […] Með bættum vinnubrögðum næst aukinn faglegur ávinningur sem skilar sér til borgaranna og stjórnsýslunnar í heild með betri þjónustu. […] Ljóst er að með stofnun nýrra ráðuneyta hefur náðst betri yfirsýn í þeim málaflokkum sem ráðuneytin sinna. Með þessu næst fram faglegur ávinningur og skilvirkari þjónusta.“

Allar þær ræður sem fluttar hafa verið hér í dag hafa einmitt fjallað um hið gagnstæða, að þetta hafi á engan hátt skilað sér í betri yfirsýn yfir málaflokka, hafi á engan hátt leitt til meiri sveigjanleika. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að hin faglega reynsla af nýafstöðnum sameiningum — látum kostnaðinn liggja á milli hluta — hafi verið góð. (Forseti hringir.) Er hann sammála þeim rökstuðningi sem settur er fram í þessari þingsályktunartillögu?