140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það má í raun segja að rökstuðningurinn fyrir þessari þingsályktunartillögu, um reynsluna af nýafstaðinni sameiningu ráðuneyta, sé óskhyggja, ef nota má það orð, eða í besta falli huglægt mat hæstv. forsætisráðherra á áhrifum þeirra sameininga sem þegar hafa orðið. Rökstuðningurinn fyrir þeirri breytingu sem nú er lögð til, og þegar verið er að fjalla um áhrif þessara breytinga, hvaða áhrif þær muni hafa á einstaka málaflokka, á einstakar stofnanir og annað því um líkt, ber merki þess að reynslan eigi ekki við þau rök að styðjast sem lögð eru fram hér. Það er fullyrt að fyrri breytingar hafi orðið til þess að vinnubrögð hafi batnað og aukinn faglegur ávinningur orðið innan stjórnsýslunnar. Það er ekki að sjá í þessu frumvarpi að aukinn faglegur ávinningur hafi orðið, hann hefur alla vega ekki orðið við gerð þessa frumvarps og það sjáum við í fleiri frumvörpum.

Minnst var á það hér í dag að í hliðarherbergjum væru bunkar af málum sem hefðu komið inn í lok síðustu viku. Tveim vikum áður voru engin mál hjá atvinnuveganefnd, sem maður hefði talið að væri sú nefnd sem þyrfti hvað helst að hafa einhver mál á sinni könnu miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag. Það er því á engan hátt hægt að sjá að sá rökstuðningur sem nefndur er hér eigi við rök að styðjast.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvers konar úttekt þarf að fara fram í þessu máli áður en hægt er að hleypa því út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Þarf ekki að fara fram nokkuð víðtæk úttekt á því hvort fjárhagslegur ávinningur hafi orðið, (Forseti hringir.) hvort náðst hafi faglegur ávinningur, hver hann hafi verið o.s.frv.? Það er í það minnsta ekki (Forseti hringir.) hægt að treysta á Stjórnarráðið eða ráðuneytin í því efni miðað við þá þingsályktunartillögu sem hér er.