140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Ég rakti í síðari ræðu minni í fimm köflum þær athuganir og þau gögn sem ég tel að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að kalla eftir meðan á vinnunni stendur. Ég held að afla þurfi þessara upplýsinga um reynsluna, upplýsinga um kostnað, upplýsinga um hinn „faglega“ árangur af þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Ég endurtek það sem ég sagði áður að í greinargerðinni má fyrst og fremst finna fullyrðingar en engan rökstuðning. Það er bara fullyrt að hlutirnir séu í góðu horfi og hafi allir farið á betri veg en það er ekki rökstutt með neinum sérstökum hætti.

Síðan þarf líka að kalla eftir því sem auðvitað hefði átt að koma fram sem fylgiskjal með tillögunni eða sem upplýsingar í greinargerð með tillögunni, þ.e. mati á áætluðum kostnaði, mati á því hvernig framkvæmdin á að eiga sér stað, það eru upplýsingar um það hvernig útfærslan verður o.s.frv. Ég rakti þetta ítarlega og ég held að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komist ekkert hjá því að fara vel yfir þetta.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vísaði til þess mikla fjölda mála sem hér komu inn í lok mars eða í byrjun apríl frá ríkisstjórninni og ég verð að segja að ríkisstjórnin hefði gert sjálfri sér greiða, og því máli sem hún leggur svona mikla áherslu á, ef hún hefði til dæmis komið með þetta mál inn í janúar eða febrúar. Það er augljóst að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þarf að verja þó nokkrum tíma til að fara yfir þá þætti sem ég hef hér rakið í ítarlegu máli. Það hefði líka verið (Forseti hringir.) til bóta ef þessar upplýsingar hefðu fylgt með tillögunni þannig að nefndin sem slík þyrfti ekki að kalla (Forseti hringir.) eftir þeim en það verður auðvitað gert.