140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þeir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa tekið til máls í dag, að undanskildum þremur ráðherrum, hafa gert alvarlegar athugasemdir við málið og raunar lýst því að þeir styðji það ekki í þeirri mynd sem það er. Það má því með sanni segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki stuðning þingflokka sinna í heild í þessu máli. Þeir þurfa væntanlega að reiða sig á stuðning þingmanna í öðrum flokkum og þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hér sé nánast um að ræða þingmannamál af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla ekki að staldra lengur við þetta á þeim örfáu mínútum sem ég hef til ráðstöfunar í þessu máli heldur koma aðeins inn á þá vinnu sem fram undan er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að nauðsynlegt er að kalla eftir öllum þeim gögnum sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði til dæmis að hann hefði í möppu á borði sínu hvað þetta mál varðar. Hæstv. forsætisráðherra nefndi að búið væri að fara rækilega í gegnum athugun á grundvelli málsins og það hlýtur að vera hægt að kalla eftir þeim upplýsingum öllum. Við þurfum líka að fá upplýsingar um fjárhagslegan ávinning. Ég vil líka leggja áherslu á að aðrar þingnefndir fái þetta mál til umsagnar.

Þá vil ég nefna til sögunnar atvinnuveganefnd, mér finnst rétt að málið sé sent til umsagnar hennar hvað varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Mér finnst mjög brýnt að umsögn komi frá þeirri nefnd til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vil líka nefna auðlindamálin, þá þætti sem þar er um að tefla í þessari tillögu, þ.e. að fá umsögn viðkomandi þingnefndar hvað það varðar. Ekki síst finnst mér það að færa stjórn efnahagsmála yfir í fjármálaráðuneytið, í ljósi þess að hér er um að ræða stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar miðað við stjórnarsáttmálann eins og hann var 2009 þegar ákveðið var að setja á fót sérstakt efnahagsráðuneyti, kalla á það að viðkomandi þingnefndir komi að málinu.

Efnahags- og viðskiptanefnd þyrfti að koma að þeim þáttum sem varða bankastarfsemi, fjármálaeftirlit og fleiri þætti. Hér er lagt til að Fjármálaeftirlitið verði fært til atvinnuvegaráðuneytis. Þar er um verulega mikla stefnubreytingu að ræða. Í þeim skýrslum sem við höfum haft til grundvallar — og við vitum skoðun Jännäris á því máli — hafa menn verið þeirrar skoðunar að skoða ætti hvort setja ætti Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankann. Ég tel að það séu sjónarmið sem rækilega þurfi að fara yfir. Það þarf að leita umsagnar þessara þingnefnda, fá þær til að fara yfir málið og ég legg mjög mikla áherslu á að það verði gert.

Ég vil líka segja það og ítreka að það hefði verið skynsamlegt af hálfu þeirra sem bera málið uppi að hafa þessi gögn tilbúin þegar málið var lagt fram. Sé vilji til þess hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að afgreiða þetta mál af hverju var það sent svona óskaplega seint inn og jafnvanbúið og það er? Það þarf nánast að kalla eftir grundvallargögnum í málinu. Það hefði verið nær ef menn hefðu komið með þau gögn fram strax við fyrri umr. og það hefði að sjálfsögðu sparað tíma í vinnu nefndarinnar, en það er augljóst að af þeim tímasparnaði verður ekki eins og málið er fram sett.

Ég vil síðan nota síðustu mínúturnar í þessari ræðu minni til að nefna Hafrannsóknastofnun og það sem fram kemur í greinargerð, þ.e. að samstarf milli ráðherra auðlindamála og atvinnuvega verði formgert með einhverjum hætti. Ég gat ekki betur heyrt en að í morgun væri meðal annars verið að ræða stjórn þeirra mála sem heyra undir Hafrannsóknastofnun. Ég hef ekki getað fengið svör við því og hef þó hlustað á allar ræður hér í dag og meðal annars á ræðu viðkomandi ráðherra, hver eigi að hafa yfirumsjón með Hafrannsóknastofnun. Er það, virðulegur forseti, hæstv. auðlindaráðherra sem á að hafa Hafrannsóknastofnun á sinni könnu eða er hún á vegum atvinnuvegaráðuneytisins? Ekki getur það verið að það sé meiningin af hálfu ríkisstjórnarinnar að Hafrannsóknastofnun sé undir tveimur herrum, varla getur það nú verið. Þegar um er að ræða slíka grundvallarstofnun sem Hafrannsóknastofnun er hlýtur það að þurfa að koma skýrt fram af hálfu þeirra sem bera þetta mál uppi hvernig með skuli fara.