140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í umræðum hérna í dag að þetta er sjötta þingmálið sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram og snýr að breytingum á Stjórnarráði Íslands. Það eru að jafnaði tvö þingmál á hverju einasta ári og hafa margir fjallað um að þetta virðist vera einhvers konar — ja, ég veit ekki hvernig á að lýsa því, að forsætisráðherra líti svo á að mikilvægasta mál hverju sinni sé að hringla í Stjórnarráðinu, færa verkefni til hægri, vinstri og breyta nöfnum og annað því um líkt. Allar þessar breytingar hafa miðað að því að stækka og fækka ráðuneytunum.

Í þessu frumvarpi er reyndar fjallað um að það sé mjög jákvætt að stækka einingarnar og fækka þeim. En það er annar vinkill á þessu sem fyrrverandi hæstv. ráðherra, Ragna Árnadóttir, hefur fjallað um og snýr að stærri ráðuneytum. Hún fjallaði um það daginn sem hún hætti sem ráðherra að með stækkun ráðuneyta værum við að auka völd embættismanna og draga úr völdum kjörinna fulltrúa og við ættum að gera okkur grein fyrir því. Hún þekkir innviði embættismannakerfisins, enda er hún fyrrverandi ráðuneytisstjóri, og maður veltir fyrir sér því sem kallað hefur verið eftir í öllum þessum umræðum, hvort heldur er þetta mál eða annað, hvað kunni að vaka fyrir hæstv. forsætisráðherra að leggja ítrekað fram mál sem beinlínis miða að því að auka völd embættismannakerfisins og draga úr völdum kjörinna fulltrúa.

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið í Stjórnarráðinu í tíð núverandi ríkisstjórnar?