140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef breytingagleði hæstv. forsætisráðherra heldur áfram mun Seðlabankinn kannski ná því að fara undir fjórða ráðuneytið áður en þetta kjörtímabil er á enda.

Hér í þingsályktunartillögu er fjallað um reynslu af nýafstöðnum sameiningum ráðuneyta. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir málaflokkana, betri samskipti við stofnanir, stærri og öflugri einingar þannig að breytingarnar með Seðlabankann, að flytja hann milli ráðuneyta á hverju einasta ári allt kjörtímabilið, virðast miðað við rökstuðning ríkisstjórnarinnar vera gerðar í þeim tilgangi að auka svigrúmið, fá betri yfirsýn yfir málaflokka o.fl.

Hv. þingmaður nefnir að mikilvægt sé að fara yfir hverju þetta hefur skilað það sem af er kjörtímabilinu, þessar miklu breytingar og þessi eilífi hringlandaháttur á Stjórnarráðinu. Er þá ekki hv. þingmaður sammála því að það sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni, um reynslu af nýafstöðnum sameiningum ráðuneyta, séu einfaldlega innihaldslausar fullyrðingar? Þar er fjallað um að þetta hafi bætt vinnubrögð, aukið faglegan ávinning sem hafi skilað sér til stjórnsýslunnar í heild með betri þjónustu, betri nýting hafi verið á fjármunum sem hafi leitt til aukins sveigjanleika til að mæta stefnumörkunarverkefnum og áherslum ríkisstjórna hverju sinni. Er ekki hv. þingmaður sammála því að ekki sé hægt að leggja fram þingsályktunartillögu með svona fullyrðingum án þess að undirbyggja þær með einhverjum rökum, gögnum eða einhverju öðru en huglægu mati hæstv. forsætisráðherra? Ég held að það að Seðlabankinn skuli hafa flust milli ráðuneyta þrisvar sinnum á einu kjörtímabili geti vart flokkast undir neitt af því sem (Forseti hringir.) talið er upp sem jákvæð áhrif af þeim breytingum sem gerðar hafa verið.