140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að halda hér langa ræðu um forgangsröð ríkisstjórnarinnar og hvaða brýnu mál hún telur að þurfi að afgreiða á vorþingi og hvaða mál eru ekki tekin á dagskrá.

Það eru 20 þingdagar eftir, virðulegi forseti, að ég hygg, af þessu þingi og á þeim tíma á að afgreiða alls konar mál eftir því sem við getum séð á rekkanum hér frammi. Enn bólar samt ekki á þeim málum sem hvað mest varða uppbyggingu í landinu á sviði atvinnumála og skuldamála heimilanna. Ég hefði haldið að það væri brýnna að við tækjum þriðjudagskvöldin í að ræða slíka hluti en þessar breytingar á Stjórnarráðinu sem eru fullkomlega vanhugsaðar og enn ein tilraun hæstv. forsætisráðherra til að hræra í Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og formaður Vinstri grænna hélt hér mikla ræðu haustið 2007 um það hvernig ætti að fara í breytingar á Stjórnarráðinu. Það var reyndar dálítið önnur ræða en sú sem hann hélt í dag. Sú ræða snerist um að það væri mjög mikilvægt að breytingar á Stjórnarráðinu væru gerðar í miklu samstarfi milli stjórnar og stjórnarandstöðu og átaldi hann þáverandi ríkisstjórn verulega og fannst þeim undirbúningi vera mjög ábótavant. Ég ætla að taka fram að það var með allt öðrum hætti en þau ósköp sem hafa verið ástunduð á þessu kjörtímabili. Eitthvað hefur breyst forritið hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra því að nú þarf ekki að hafa samstarf við hvorki einn né neinn.

Hv. þm. Jón Bjarnason bendir hér á það sem þegar hefur komið fram, að þær breytingar sem áformaðar eru á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hafa mætt mikilli gagnrýni. Er þetta hið mikla samráð sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað á tyllidögum? Ég get ekki séð það.