140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kemur mér ekkert á óvart, nákvæmlega sama svarið og hjá öðrum kemur fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal sem fylgist afskaplega vel með í þinginu og tekur virkan hátt, hann hefur aldrei heyrt af þessu. Enginn hefur heyrt af þessu eða veit af hverju hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon þarf allt í einu korteri fyrir kosningar að fá bankana, svona inn í kosningabaráttuna. Þetta er hið furðulegasta mál. Hv. þingmaður eins og aðrir reynir að leita skýringa og nefnir tenginguna við Evrópusambandið.

Við vitum að hæstv. samfylkingarráðherrar í það minnsta og einnig hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon eru mjög iðnir við að taka við skipunum frá Evrópusambandinu. Kannski er þetta bara þýðingarvilla, kannski átti þetta að vera bara eitthvað allt annað, þetta er bara einhver „lapsus“, menn hafi ekki þýtt rétt það sem kemur frá Evrópusambandinu og þetta sé allt tómur misskilningur. Í það minnsta er ekki gerð nein tilraun til að útskýra þetta.

Hv. þingmaður nefnir að kortleggja þurfi breytingarnar og undirbúa þær og ég er honum hjartanlega sammála. Og ég vil fá sjónarmið hv. þingmanns varðandi það að í þessum stutta texta sé viðurkennt að menn hafi ekki hugsað fyrir síðustu breytingum.

Í þingsályktunartillögunni segir um efnahags- og viðskiptaráðuneytið á bls. 4, með leyfi forseta:

„Ef raunverulega á að efla ráðuneytið þyrfti fyrst og fremst að auka getu þess til greiningar, áætlanagerðar og samhæfingar. Slík efling mundi að öllum líkindum krefjast umtalsverðrar fjölgunar starfsmanna.“

Virðulegi forseti. Þetta kemur hér fram. Þeir gætu alveg eins skrifað: Við hugsuðum bara ekkert fyrir þessu. Allar ræðurnar sem við höfum haldið um hvað það sé stórkostlegt að komið sé efnahags- og viðskiptaráðuneyti eiga bara ekki við rök að styðjast. Við gleymdum bara að hugsa fyrir þessu.

Ef það vantar starfsmenn þarna vantar væntanlega líka starfsmenn í nýtt fjármála- og efnahagsmálaráðuneyti.