140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ágætisræðu. Eins og oft áður getur hann greint kjarnann frá hisminu í þeim málum sem hér koma fram.

Í þessari þingsályktunartillögu er hugmynd sem hefur raunverulega ekki beint með breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu að gera en sem ég verð að segja að mér hugnast vel. Á bls. 5 er talað um að til þess að auka gagnsæi í efnahagsmálum og tryggja samfélagslegt aðhald við hagstjórn sem mótvægi við sterkt ráðuneyti fjármála og efnahags sé til skoðunar að koma upp sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga. Ég er reyndar ekki alveg klár á því hvað það er að „tryggja samfélagslegt aðhald við hagstjórn“ en látum það liggja á milli hluta þó að það sé pínulítið kauðskt orðalag. Nú er þetta greinilega fyrirmynd sem er fengin annars staðar á Norðurlöndunum og sérstaklega frá Danmörku. Hér eru hugmyndir um hvernig eigi að skipa í þessa nefnd, sagt að forsætisráðherra eigi að skipa í hana að fengnum tilnefningum. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á hugmyndinni almennt?

Í öðru lagi spyr ég: Hvernig ætti að skipa í nefndina? Getur verið að þarna komi pólitíkin kannski helst til nærri (Forseti hringir.) og taki sjálfstæðið frá nefndinni bara af því hvernig formið er?