140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eins og ég vissi, það kom einhver nýr sjónarhóll fram með því að spyrja hv. þingmann sem oft nær að hugsa út fyrir boxið. Ég var ekki búinn að átta mig á að skipun nefndarinnar mundi leiða efnahagsmálin að einhverju leyti undir forsætisráðherra aftur. Þetta er kannski ekki algjör hringavitleysa en það er mikill þvælingur í málinu. Ef þetta væri til dæmis að fyrirmynd „Det økonomiske råd“ í Danmörku þar sem eru virtringarnir þrír gæti maður búist við því að með því að leiða pólitíkina inn í þessa vitringanefnd mundi hún ekki færa manni óhlutdrægar upplýsingar eins og beðið er um, heldur mundi hún í stíl við vitringana þrjá í Biblíunni færa okkur frekar bull, ergelsi og pirru og færa það inn í umræðuna.

Hv. þingmaður hefur mikið kynnt sér efnahagsmál í Þýskalandi þar sem hann er menntaður og hefur fylgst mikið með þýskri umræðu. Þess vegna þætti mér forvitnilegt að heyra hvernig þessum málum er háttað í Þýskalandi. Er eitthvert svipað fyrirkomulag eða er þetta ef til vill sérnorrænt?