140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í morgun voru fréttir af því að það hefði verið leki af utanríkismálanefndarfundi þar sem verið var að fjalla um Icesave og Evrópusambandið. Þessu var að sjálfsögðu vísað á bug en það var hæstv. utanríkisráðherra sem ásakaði þingmenn um að leka upplýsingum af utanríkismálanefndarfundi. Það skýtur svolítið skökku við, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra sjálfur er til rannsóknar hjá forseta Alþingis fyrir einmitt meintan leka í þessu máli.

Hver er grunnurinn í þessu máli varðandi Icesave? Grunnurinn er sá að það var vilji til þess hjá íslensku þjóðinni að hagsmuna Íslands yrði gætt í þessu máli og það hefur verið vilji hjá öllum aðilum til að gera það í fullri samstöðu. Hins vegar er það ekki hægt þegar hæstv. utanríkisráðherra gengur fram með þeim hætti sem hann gerir sem og hæstv. ríkisstjórn og virðist vera fyrirmunað að segja satt og rétt frá hlutunum. Það virðist vera orðið daglegt brauð að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn í þessu máli segi beinlínis ósatt um stöðu þessara mála.

Það hlýtur að vera krafa okkar þingmanna og þjóðarinnar að fá að vita hvaða upplýsingum var komið til Evrópusambandsins um Icesave-málið. Hvers eðlis voru þessi mótmæli? Þetta hlýtur að mega upplýsast, þetta getur ekki verið leyndarmál og það hlýtur að mega upplýsa þingmenn, þingheim og þjóðina um hvaða upplýsingum var þarna komið á framfæri, hvaða mótmælum var komið á framfæri. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa okkar ef það á að vera hægt að reka þetta mál í samstöðu og treysta hæstv. ríkisstjórn til þess að menn fari að leggja það í vana sinn að segja satt frekar en ósatt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)