140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér í landinu með ríkisstjórn sem hefur brugðist heimilunum. Ekki nóg með það, heldur erum við líka með ráðherra innan ríkisstjórnarinnar sem kjósa að fara í fjölmiðla og segja ósatt, kjósa hreinlega að segja hluti um þingmenn og að þeir hafi sagt einhverja hluti sem eru hreinlega lygi, forseti, ég verð bara að leyfa mér að nota það orð.

Hæstv. ráðherra segir í viðtali við Dagblaðið að þingmenn Framsóknarflokksins hafi lekið hér upplýsingum út af utanríkismálanefndarfundi. Þetta er lygi. Hæstv. ráðherra getur bara spurt fréttamenn Ríkisútvarpsins út í það mál. Ríkisútvarpið hefur fulla heimild okkar framsóknarmanna til að segja frá þeim samtölum sem þar áttu sér stað. Það er óþolandi, forseti, að sitja undir svona ósannindum frá ráðherra.

Svo segir hæstv. ráðherra líka að þingmenn hafi ekki viljað hitta aðaltalsmann Íslands fyrir dómstólum. Þetta er ósatt, þetta er bara algjörlega ósatt og ráðherrann á vitanlega að skammast sín fyrir að koma fram með þessum hætti.

Til að bíta hausinn af skömminni, frú forseti, sýnist mér nú í annað sinn á mjög stuttum tíma hæstv. ráðherra vitna í viðtali til orða á fundi utanríkismálanefndar og er þá væntanlega að brjóta þingsköp ef farið er eftir nánum reglum utanríkismálanefndar. (Gripið fram í.) Það er þá í annað skipti á stuttum tíma sem slíkt gerist. Ég held, frú forseti, að það þurfi að fara aðeins yfir hlutina með hæstv. utanríkisráðherra. Það er að koma núna á daginn, frú forseti, að það er verulega óheppilegt að bæði aðildarumsóknin og málsvörnin séu á hendi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar. Mér sýnist hæstv. ráðherra ekki geta greint þarna á milli og það er nákvæmlega það sem við óttuðumst í upphafi við að blanda þessum málum inn í þetta ráðuneyti. Þetta er mjög óheppilegt og ég lýsi algjöru vantrausti á hæstv. ráðherra í þessum málum. Mér sýnist ráðherrann ekki fær um að gegna þessari stöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)