140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég vil ræða áform ríkisstjórnarinnar um að hjálpa skuldsettum fjölskyldum í gegnum hækkun barnabóta. Ástæða þess að hækka á barnabæturnar er sú að almenn leiðrétting lána sé óskilvirk aðgerð. Það er rangt að halda því fram að almenn leiðrétting sé óskilvirk. Í nýlegri greiningu Seðlabankans kemur fram að almenn leiðrétting muni hjálpa heimilum í greiðslu- og skuldavanda og fækka þeim um 15 þúsund. 110%-leiðin og sérstök vaxtaniðurgreiðsla fækkuðu heimilum í greiðsluvanda aðeins um 1.450. Með því að skilyrða upphæð aðstoðar vegna skuldavanda við barnafjölda er verið að mismuna þeim sem glíma við sama forsendubrest lána. Mismunun á grundvelli barnaláns bætist nú við mismunun milli þeirra sem tóku verðtryggð lán og hinna sem fengu háar vaxtabætur á meðan gengistryggð lán voru lögleg.

Með hækkun barnabóta er ríkisstjórnin á flótta frá norræna velferðarkerfinu yfir í frjálshyggjuvelferðarkerfið þar sem fólk þarf að sanna fátækt sína til að fá aðstoð. Í norræna velferðarkerfinu eru barnabætur ótekjutengdar til að tryggja að millistéttin sjái hag sinn í því að fjármagna öflugt velferðarkerfi í gegnum meðal annars þrepaskipt skattkerfi. Ríkisstjórnin hefur grafið undan norræna velferðarkerfinu með því að koma á þrepaskiptum tekjuskatti á sama tíma og tekju- og eignatenging bóta hefur verið aukin.

Frú forseti Ég óttast að hálf þjóðin verði gerð að bótaþegum til þess að losa fjármagnseigendur frá því að þurfa að taka á sig tapaðar skuldir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)