140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég kem hingað upp rétt eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir til að ræða frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag þar sem segir að hjálpa skuli skuldsettum heimilum í gegnum barnabætur. Með leyfi forseta stendur:

„Stjórnvöld ræða mögulegar hækkanir barnabóta til að bregðast við greiðsluvanda barnafjölskyldna. Flatar niðurfellingar á skuldum koma ekki til greina.“

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja, þetta er svo arfavitlaust. Við læknum ekki opið beinbrot með plástri. Það þarf að ráðast að rót vandans en ekki aumingjavæða hálfa þjóðina.

Hér varð hrun. Skuldir heimilanna eru verðtryggðar, það er ekkert sérstaklega flókið, þær stökkbreyttust. Kaupmáttur fólks minnkaði hjá mörgum vegna falls krónunnar en hjá öðrum vegna kjararýrnunar og atvinnuleysis. Það þarf að laga. Fólk þarf ekki barnabætur. Á að borga fólki bætur? Þetta er enn eitt dæmið um meðvirkni ríkisstjórnarinnar með þessu helsjúka fjármálakerfi. Það er það sem er bilað. Það þarf að laga. Það þarf ekki að borga fólki meiri barnabætur. Við getum litið á það sem óbeinan ríkisstyrk til fjármálafyrirtækja. Það er nákvæmlega það sem það er. Fólk vill ekki bætur, það vill réttlæti og það á rétt á að fá réttlæti. Við viljum búa saman í réttlátu þjóðfélagi en það gerist ekki með greiðslu barnabóta. (BirgJ: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)