140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það voru góðar umræður í gær um þetta mál, hér voru fluttar margar góðar ræður. Það er alveg ljóst að sú þingsályktunartillaga sem hér um ræðir nýtur ekki meirihlutastuðnings í ríkisstjórnarflokkunum eins og sakir standa. Í það minnsta tveir hv. þingmenn tóku til máls í gær um málið og sögðust ekki styðja hana. Það voru hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Árni Páll Árnason.

Fram kom mikil gagnrýni á málið og meðal annars fjallaði hv. þm. Jón Bjarnason um að þær breytingar sem fyrirhugaðar væru í þingsályktunartillögunni hefðu verið gagnrýndar mjög af öllum aðilum í sjávarútvegi, landbúnaði og af mörgum í atvinnulífinu. Hv. þingmaður sagði að það hefði verið gagnrýnt mjög í fjöldamörgum ályktunum og umsögnum um þessi mál að stofna nýtt auðlindaráðuneyti og leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og að þingið hefði ítrekað ýtt þessum tillögum hæstv. forsætisráðherra til hliðar.

Margir velta því fyrir sér hvað búi þarna að baki og margir, hv. þm. Jón Bjarnason og fleiri, reyndu að spyrja hv. þingmenn í gær hvað byggi að baki því hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að gefa svona ítrekað eftir gagnvart Samfylkingunni eins og raun bæri vitni. Það lægi alveg ljóst fyrir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ályktað gegn því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á sínum tíma. Samt sem áður kæmi hæstv. forsætisráðherra alltaf fram með þessar tillögur. Margir hafa áhyggjur af því að þær muni veikja þessar atvinnugreinar, sérstaklega í því ástandi sem nú er.

Ástæðan kann að vera sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er komin algerlega út í horn og er komin í fangið á hæstv. forsætisráðherra og þingflokki Samfylkingarinnar og virðist litlu geta ráðið um stóru straumana. Það kemur vel fram í Evrópusambandsmálinu og raunar enn betur í frétt sem kom nýlega inn á mbl.is þar sem varaformaður Vinstri grænna biðlar hreinlega til Samfylkingarinnar og vill að Vinstri grænir verði eins konar aðildarfélag í Samfylkingunni. Þar segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna og mennta- og menningarmálaráðherra, aðspurð um samvinnu og jafnvel sameiningu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, mikinn samhljóm vera með flokkunum. Það væri ágreiningur milli flokkanna um aðild að Evrópusambandinu — sem reyndar enginn sér því að það virðist vera alger samhljómur þar — sem væri ekkert launungarmál, en að miklu meira sameinaði flokkana en sundraði þá.

Varaformaður Vinstri grænna er biðlar þar til Samfylkingarinnar um að stofnuð verði Samfylking vinstri grænna, að þessu verði bara steypt saman í tvo flokka í næstu kosningum. Það sem við sjáum hér eru ef til vill rökin fyrir því af hverju Vinstri grænir gefa eftir í öllum málum. Það er ekki bara varðandi Evrópusambandsmálið, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sýndi vel áðan að búið er að gefa eftir í, það eru öll mál. Það eru þær ráðuneytisbreytingar sem við horfum upp á núna, það er eftirgjöf í öllum málum. Það er ekki orðinn neinn munur á Vinstri grænum og Samfylkingunni. Flokkarnir eru að renna saman í einn flokk og þeir hnökrar sem við sjáum birtast okkur eru bara það samrunaferli sem á sér stað.

Það væri fróðlegt að fá það fram hjá hæstv. forsætisráðherra, ef hún kemur aftur inn í umræðuna, hvort þetta mál er liður í samrunaferli flokkanna tveggja. (Gripið fram í.) Það hlýtur að skýra það af hverju gefið er eftir gagnvart grunnatvinnugreinunum í málinu. Það liggur alveg ljóst fyrir að stofnun atvinnuvegaráðuneytis hefur verið gagnrýnd af nær öllum innan landbúnaðarins og sjávarútvegsins.

Það liggur alveg ljóst fyrir að gamli Alþýðuflokkurinn og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki verið vinur þessara mikilvægu og öflugu atvinnugreina og það er einmitt þess vegna sem það er athyglisvert að sjá að varaformaður Vinstri grænna er núna farin að biðla til Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) um sameiningu þessara flokka. Við það hljóta að vakna mjög margar spurningar um hvert við stefnum (Forseti hringir.) í stórum málaflokkum.