140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það sem hæstv. forsætisráðherra fjallar um sem gríðarlegt samráð hefur bara verið sýndarmennskan ein því að allt það samráð sem haft hefur verið varðandi þær ráðuneytisbreytingar og hugmyndir sem hæstv. forsætisráðherra hefur komið fram með — þetta er sjötta þingmálið sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram um stjórnarráðsbreytingar, það eru tvö þingmál á ári. Við eigum eftir að fá þrjú í viðbót ef hæstv. ríkisstjórn situr út kjörtímabilið. Það samráð sem verið hefur hefur fyrst og fremst verið sýndarsamráð því að eins og ég rakti áðan í ræðu minni hafa að allir í þeim málaflokkum sem falla eiga undir atvinnuvegaráðuneytið varað mjög við því.

Það er kannski þess vegna sem ekkert er fjallað um í umræddri þingsályktunartillögu — og það er gott að forsætisráðherra gengur hér fram hjá og fylgist með umræðum — hvar Hafrannsóknastofnun á að vera. Á hún að vera í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eða á hún að vera í atvinnuvegaráðuneytinu? Það er vegna þess að langflestir þeir sem fjallað hafa um þessi mál hafa gagnrýnt það mjög að Hafrannsóknastofnun flytjist yfir til auðlindaráðuneytisins. Hæstv. forsætisráðherra ætti að kynna sér þær fjölmörgu ályktanir og fleira sem lagt hefur verið fram.

Varðandi kosningabandalag Vinstri grænna og Samfylkingar, hvort þessir flokkar ætli að ganga í eina sæng hefur marga auðvitað grunað það og þeir hafa fylgst með því hvernig samflokksfélagar hæstv. forsætisráðherra hafa gagnrýnt ráðherrann og viljað skipta henni út. Nærtækt er að nefna hv. þm. Árna Pál Árnason og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson í því efni. Samfylkingin glímir við mikinn forustuvanda, og það kann vel að vera að þarna sjái hæstv. formaður Vinstri grænna sér leik á borði, að þar eigi hann möguleika á því jafnvel að verða formaður í þessari Samfylkingu vinstri (Forseti hringir.) grænna þegar aðlögunarferlinu að flokknum lýkur.