140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Á þeim rúmlega þremur árum sem þessi ríkisstjórn hefur starfað er hún búin að koma með sex frumvörp um breytingar á Stjórnarráðinu. Í hvert skipti hafa menn spurt um rök fyrir breytingunum en ekki hefur verið mikið um þau, enda hefur aldrei verið jafnlítið um rök og núna. Ég velti því fyrir mér hvort sé hér um að ræða einhvers konar afslöppun frá erfiðum málum hjá ríkisstjórninni þegar hún leggur fram frumvörp eða þingsályktunartillögur um breytingar á Stjórnarráðinu, að það sé til að draga athyglina frá öðrum og mikilvægari málum sem brenna á þjóðinni.

Auðvitað vitum við að hér er um hrossakaup að ræða hjá hæstv. ríkisstjórn og þau hafa nú ekki verið sjaldgæf. Ætli það séu ekki þau viðskipti sem blómstra hvað mest núna á þessu kjörtímabili, hrossakaupin á milli ríkisstjórnarflokkanna?

En nú er komin upp glæný hugmynd sem aldrei hefur heyrst áður og hún er það sem stendur upp úr þegar við skoðum þær breytingarnar sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu. Hún gengur út á það að bankarnir fari yfir til atvinnuvegaráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Það er þvert á það sem lagt var upp með í allri umræðu um Stjórnarráðið í öllum tillögum frá þeim sérfræðingum sem skoðað hafa fjármálamarkaðinn. Þeir hafa þvert á móti lagt það til að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.

Allt í einu, korteri fyrir kosningar, kemur þingsályktunartillaga um Stjórnarráðið þar sem farið er fram á að þingið samþykki að bankarnir fari yfir til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Ég veit ekki til þess að komið hafi nokkrar einustu röksemdir fyrir því. Ef þær hafa komið fram, sem ég veit að hefur ekki gerst, er það þvert á það sem hæstv. ráðherrar hafa sagt okkur og guma sig af hvað eftir annað á þessu kjörtímabili. Þeir hafa ekki haft lítil orð um hvað það hafi verið stórkostlegt að búa til efnahags- og viðskiptaráðuneyti, það var þvílíkt afrek.

Hvað ætla þeir að gera við efnahags- og viðskiptaráðuneytið núna? Leggja það niður því að þeir uppgötvuðu allt í einu að það vantaði fullt af fólki í efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Það er auðvitað hæpið að gera grín að því, þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. En ég vek athygli á þessum þætti sem menn hafa kannski ekki áttað sig á. Ég spyr: Af hverju vill hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon allt í einu fá bankana rétt fyrir kosningar? Hvers vegna? Ég held að það þurfi að skoða það sérstaklega.

Ég vek athygli á því að við erum hér með Stjórnarráð, við erum með embættismenn og embættismannakerfi til að halda ákveðnum stöðugleika því að þó svo að ríkisstjórnir komi og fari og stjórnmálamenn komi og fari skiptir máli að það sé ákveðinn stöðugleiki í stjórnkerfinu. Það vantar hins vegar pólitíska stefnumótun og hún hefur kannski aldrei verið minni en í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég vek athygli á því að það hefur áhrif sem stendur í þessari þingsályktunartillögu, sem er nokkrar línur. Allar þær breytingar, sem farið hafa langt fram úr öllum kostnaðaráætlunum, hafa áhrif, ekki bara á fólkið í landinu heldur líka á það fólk sem starfar í Stjórnarráðinu. Það skiptir afskaplega miklu máli að breytingarnar séu vel hugsaðar allra hluta vegna, meðal annars vegna þess að sameiningu og sundrungu á vinnustað fylgir mjög mikið álag, alveg sama hvar það er. Og þó svo að við vitum að kostnaður hafi farið langt fram úr áætlun hefur aldrei og verður aldrei metinn til fjár sá mannauður og sú orka sem tapast hefur í alls konar núningi í tengslum við allar þessar breytingar. Það er ábyrgðarhluti hjá hæstv. ríkisstjórn að gera hér enn og aftur, rétt fyrir kosningar, breytingar sem hvergi hafa verið ræddar, breytingar sem enginn stuðningur er við og sem enginn hefur heyrt um þrátt fyrir að við höfum rætt um Stjórnarráðið svo dögum skiptir á þessu kjörtímabili. Þrátt fyrir að almannatengslameistarar ríkisstjórnarinnar telji að þetta sé gott til þess að draga athyglina frá alvarlegum málum sem (Forseti hringir.) þjóðin glímir við núna meðal annars vegna þessarar ríkisstjórnar er svo sannarlega ekki forsvaranlegt að leggja svona breytingar fram hér og nú.