140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst aðeins að fara yfir það sem hv. þingmaður kom inn á, sem margt var áhugavert. Hv. þingmaður kom inn á eitt sem menn eru kannski búnir að gleyma. Sett var heljarinnar fræðimannastarf af stað í kringum þetta sem kostaði umtalsverða fjármuni. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningum um kostnaðinn. Það var ekki fyrr en hv. forsætisnefnd þingsins fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að gerð yrði úttekt á því sem kom fram í upplýsingum, í það minnsta að hluta til. Það tengist því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi að í ergelsiskasti neitaði hæstv. forsætisráðherra í kjölfarið að svara spurningum sem var beint til allra ráðuneytanna. Nú veit ég ekkert hvernig það tengist en hæstv. ráðherra kennir nú stundum einhverjum öðrum um en sjálfri sér og þetta var kannski ein afleiðingin af því.

Það væri kjörið að rifja upp þá skýrslu og sjá hvað sérfræðingarnir sögðu — sem margir eru nú álitsgjafar, kannski flestir, og unnu þá skýrslu — í öllum helstu fjölmiðlum, þeir bentu á og töldu það vera aðalatriðið að sameina litlu ráðuneytin. Það var niðurstaðan í skýrslu þeirra. Hvað var gert? Í kjölfar skýrslunnar voru tvö stærstu ráðuneytin sameinuð en litlu ráðuneytin voru látin vera óbreytt.

Það sem hv. þingmaður spyr um varðandi aðstoðarmennina er fróðlegt að meta í ljósi þessa. Það er náttúrlega ljóst, virðulegi forseti, að til dæmis það sem er á bls. 5 um verkaskiptingu ráðuneyta á sviði efnahagsmála á Norðurlöndunum er mjög villandi framsetning. Þar eru aðstoðarráðherrar, ég veit að í fjármálaráðuneytinu í Noregi eru fjórir aðstoðarráðherrar sem eru iðulega þingmenn. (Forseti hringir.)

Það er engin hugsun í þessu. Það getur vel verið að niðurstaðan verði sú að menn muni drita niður pólitískum aðstoðarmönnum sem aldrei fyrr í kjölfar þessarar þingsályktunartillögu.