140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Mig langar í framhaldi af því sem kom fram um aðstoðarmennina að nefna að akkúrat á bls. 5 stendur, með leyfi forseta:

„Til þess að auka gagnsæi í efnahagsmálum og tryggja samfélagslegt aðhald við hagstjórn sem mótvægi við sterkt ráðuneyti fjármála- og efnahags, til viðbótar“ — takið eftir — „við ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál þar sem aðrir ráðherrar koma að borðinu, er til skoðunar að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga, sem forsætisráðherra skipar að fengnum tilnefningum m.a. frá háskólum, …“

Þarna kemur fram að hér er enn á ný þessi verklausa ríkisstjórn að úthýsa lagasetningarvaldinu frá Alþingi í fyrsta lagi og ákvörðunarvaldinu út úr ráðuneytunum í öðru lagi. Og því spyr ég: Hvar liggur þá ráðherraábyrgðin héðan í frá? Vegna þess að allar þær tillögur sem ríkisstjórnin kemur með lúta að þessu.

Sem dæmi má nefna, og ég má til með að nefna það hér, að í tillögu sem Samfylkingin styður varðandi stjórnlagaráðið er lagt til að stjórnarskráin verði byggð upp á almennri lagasetningu í 88 liðum. Þegar það er komið hér inn í þingið með lagasetningu leggur ráðherra alltaf til að það sé reglugerðarsetning, þannig að hér er smám saman að fjara undan Alþingi. Þessi ríkisstjórn er svo sannarlega með það á stefnuskrá sinni og sækir það til Brussel að lagasetningarvaldið endar í höndum embættismanna. Það er ég ósátt við og þess vegna er þetta afar alvarlegt mál.

Í þriðja lagi er það háalvarlegt mál að þetta skuli vera lagt til. Hér er lagt til að umrætt ráð verði stofnað. Bara það eitt og öll þingsályktunartillagan sjálf byggir ekki á neinu kostnaðarmati. (Forseti hringir.) Slengt er fram einhverjum hagræðingartölum úr tveimur sameiningum og hvergi er minnst á hvaða (Forseti hringir.) kostnað þetta hefur í för með sér. Hvað finnst þingmanninum um það?