140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í annað sinn til að ræða þessa þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er eitt sem vekur athygli mína og það er að flestir sem tekið hafa til máls virðast vera sammála um að þetta séu handahófskennd vinnubrögð, benda á að margoft hafi verið gerðar breytingar á Stjórnarráðinu frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum og að alla stefnu og heildstæða sýn virðist skorta.

Á bls. 2 í þingsályktunartillögunni er talað um reynsluna af nýafstöðnum sameiningum ráðuneyta. Þar er vitnað til úttektar sem Ríkisendurskoðun gerði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar.“

Og áfram segir að þótt ekki sé liðinn langur tími megi draga eftirfarandi ályktanir af sameiningunni: Að fjárhagslegt hagræði hafi orðið af henni; að til hafi orðið stærri og öflugri einingar; að betri og öflugri kaupendur séu að þjónustu; að meira svigrúm sé til stefnumarkandi vinnu; að betri yfirsýn sé yfir málaflokka; að það séu betri samskipti við stofnanir og samþætting og að lokum er þess getið að sameining stoðþjónustu allra ráðuneytanna hafi nú verið sameinuð innan Stjórnarráðsins.

Þegar maður les þetta gæti maður haldið að þetta sé hið besta mál og að þessi orð séu merki um að aðgerðin sé skynsamleg. Og maður hefur Ríkisendurskoðun fyrir því. En svo fer maður að rýna í textann. Þá situr eftir hjá mér mikill efi vegna þess að notkun á gæsalöppum og greinarskilum og öðru er á þann veg í þessu skjali að það er alls ekki klárt hvort allir þeir þættir sem ég taldi upp eru úr skýrslu Ríkisendurskoðunar eða hvort þetta er hrein viðbót frá þeim sem gerðu þessa greinargerð, en ekki er vísað í rannsóknir, úttektir, skýrslur eða neitt annað. Ég tel mig þurfa að fá skýringu á þessu.

Ef forsætisráðherra, sem hefur setið undir þessari umræðu, gæti útskýrt hvort það geti verið að allur sá ábati sem ég taldi upp sé ekki úr skýrslu Ríkisendurskoðunar finnst mér eins og um nokkurs konar blekkingar sé að ræða. Þegar maður les textann í belg og biðu, eins og heyrðist á máli mínu hér áðan, er eins og hægt sé að rekja alla þessa kosti til úttektar Ríkisendurskoðunar.

Ég ætla því að biðja forsætisráðherra um að skera úr um þetta fyrir mig. Vel má vera að þetta sé bara svona ruglingslega uppsett í greinargerðinni, en ef það sem ég er að ýja að er rétt, að verið sé að raða setningum þannig upp að lesendur haldi að um sé að ræða niðurstöður Ríkisendurskoðunar, þá fæst úr því skorið með svörum forsætisráðherra. Það verður fróðlegt að heyra hverju hæstv. forsætisráðherra um þetta.