140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem viðkomandi þingmaður er vel að sér á sviði fjármálageirans og hefur yfirgripsmikla hagfræðiþekkingu langar mig að grípa niður í bls. 5, með leyfi forseta:

„Með breytingunum 2009 dró mjög úr hagfræðilegri þekkingu fjármálaráðuneytisins og yrði talið nauðsynlegt að efla þekkingu ráðuneytisins á því sviði frekar enda þótt efnahags- og viðskiptaráðuneytið mundi starfa áfram.“

Þarna var verið að hræra í ráðuneytunum og sú ákvörðun var tekin að taka Seðlabankann undan forsætisráðuneytinu. Svo er það lagt til aftur að efla enn frekar forsætisráðherraembættið. Hver telur hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson að ástæðan sé? Er verið að smíða nýtt apparat utan um þá ríkisstjórn sem nú situr? Er hæstv. „allsherjarráðherra“ jafnvel að huga að því að taka við forsætisráðuneytinu og taka þar með aftur við bankamálum? Þegar verið er að ryðja ráðherrum úr vegi úr þessari ríkisstjórn virðast öll völd brottrekinna ráðherra færast á hendur hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Er eitthvað slíkt í bígerð núna að mati hv. þingmanns? Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að varaformaður Vinstri grænna boðaði það á opnum fundi á Selfossi í gær að þessir flokkar væru jafnvel að fara að sameinast, eða ætluðu alltént að ganga bundnir til kosninga. Þá á ég við, herra forseti, Samfylkinguna og Vinstri græna.