140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get nú illa svarað því hvað mönnum gengur til með þessum hringlandahætti með ráðuneytin. Það er aldrei nema einhver spekúlasjón sem lítið mark yrði væntanlega takandi á. En hitt vakti aftur á móti athygli mína að í þingsályktunartillögunni rak ég augun í að talað er um mikið hagræði af sameiningu ráðuneyta. Þar er talað um stærri og öflugri einingar og meira svigrúm til stefnumarkandi vinnu, betri yfirsýn yfir málaflokka, samþættingu og annað slíkt. Það stangast á við það sem sagt er hér að með stofnun efnahags- og viskiptaráðuneytisins hafi hagfræðiþekkingu í fjármálaráðuneytinu hrakað þannig að hér liggur fiskur undir steini. Annaðhvort er það ekki rétt eða þá að það er ekki rétt að góð reynsla hafi orðið af sameiningu ráðuneytanna.

Ég ætla ekki að leggja mat á það sjálfur hvort er rétt, en hitt er aftur á móti greinilegt að það eru þversagnir í þessari þingsályktunartillögu þannig að röksemdin fyrir því að sameina ráðuneyti er líka röksemd á móti því að sameina þau. Ég er því ekki alveg með á nótunum hvað menn eru að fara í þessari greinargerð.