140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem nú hefur staðið dagpart og eitthvað til viðbótar hefur satt að segja valdið mér mjög miklum vonbrigðum. Þegar við hefjum umræðu um mál af þessu taginu hljótum við að gera ráð fyrir því að umræðan leiði til þess að okkur sé orðið það ljósara þegar henni lýkur hvað ríkisstjórnin er að fara með þeim breytingum sem boðaðar eru í þingsályktunartillögunni. Því er hins vegar ekki að heilsa. Ríkisstjórnin hefur að mestu leyti sagt pass og litlu sem engu svarað af þeim spurningum sem fyrir hæstv. ríkisstjórn hafa verið lagðar. Hér hafa þó talað þrír hæstv. ráðherrar. Þeir hafa allir verið spurðir spurninga, en svörin hafa verið mjög rýr. Þetta er ekki hægt. Þetta er algjörlega í blóra við þann vilja sem fram kom þegar lög voru síðast sett um Stjórnarráð Íslands þar sem gert var ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra væri gert skylt að koma með þær hugmyndir sem hún hefði um breytingar á Stjórnarráðinu inn í þingið. Gleymum því ekki að umræðan sem fram fór um það frumvarp á sínum tíma snerist ekki síst um það að við sem gagnrýndum þetta mál töldum að með frumvarpinu, eins og það lá þá fyrir, væri verið að færa hæstv. forsætisráðherra óeðlilega mikil völd. Hæstv. forsætisráðherra hafnaði því á sínum tíma. Hæstv. forsætisráðherra beitti sér síðan fyrir breytingartillögu sem fól það í sér að það þyrfti að koma með málið í formi þingsályktunartillögu inn í þingið.

Þá hlutum við líka að ganga út frá því að í þeirri þingsályktunartillögu væri nákvæmlega frá því greint hvað hér væri verið að gera, með hvaða hætti ætti að gera breytingarnar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins. Það er ekki gert með þessari þingsályktunartillögu. Þess vegna er verið að lítilsvirða þingið. Þess vegna er verið að fara Krýsuvíkurleið fram hjá lagasetningu Alþingis með því að koma með plagg af þessu taginu sem skýrir varla nokkurn einasta hlut og gerir okkur mjög erfitt fyrir að taka efnislega afstöðu til einstakra þátta þessarar tillögu. Það er ekki hægt að búa við það.

Ég kallaði eftir upplýsingum frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. forsætisráðherra um hvað væri til dæmis fyrirhugað um breytingar milli umhverfisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þá var ég að vísa til stofnanaumhverfisins. Ég fékk engin svör, ekki nokkur. Þögnin ein var látin tala.

Hæstv. umhverfisráðherra talaði eins og véfréttin frá Delfí, sagði að það yrðu einhverjar breytingar en gat í engu svarað um hvað væri fyrirhugað. Nú ítreka ég spurningu til hæstv. forsætisráðherra sem hlýtur að koma upp í ræðustól á eftir og svara öllum þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar: Hver er fyrirætlunin varðandi Hafrannsóknastofnun? Hver er fyrirætlunin varðandi Veiðimálastofnun?

Þetta mál er ákaflega vanbúið eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði. Það er athyglisvert, sem ég raunar vakti máls á í ræðu í gær, að þessi þingsályktunartillaga, að svo miklu leyti sem hún er skiljanleg, felur í sér afturhvarf frá þeirri stefnumótun sem fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar var talað um að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Hér er verið að tæta það ráðuneyti niður í litlar einingar og skjóta því síðan inn í önnur ráðuneyti. Það er horfið frá stefnumörkuninni sem þá lá til grundvallar.

Nú segir hæstv. forsætisráðherra að þetta sé allt saman gert á grundvelli faglegrar vinnu og greiningar og ég ítreka spurningu til hæstv. ráðherra: Er það þá þannig að þegar upphaflegu hugmyndirnar voru skrifaðar á blað í stefnuyfirlýsingunni hafi þær verið illa undirbúnar, ekki settar fram á grundvelli neinnar greiningar eða faglegrar vinnu? Var þetta bara eitthvað sem kom upp í kollinn á hæstv. forsætisráðherra og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra þegar þau voru að semja um þessi mál?

Það er mjög ótrúverðugt gagnvart hagstjórn á Íslandi þegar það er gert þannig, eins og við sjáum í þessum hugmyndum, að nú á að setja Seðlabankanum þriðja húsbóndann á þessu kjörtímabili. Fyrst var hann undir forsætisráðuneytinu, svo undir efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og færð fyrir því þau rök að þar ætti hann einmitt að vera og núna er allt í einu búið að skutla honum inn í fjármálaráðuneytið. Eins og ég vakti athygli á hlýtur þetta að skapa miklar spurningar um trúverðugleika íslenskra stjórnvalda gagnvart hagstjórninni þegar kemur að samskiptum (Forseti hringir.) við erlenda aðila sem við eigum mikil samskipti við og mikið undir í því að sá trúverðugleiki sem nauðsynlegur er (Forseti hringir.) sé til staðar.