140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðuna. Hér talar maður með reynslu, eins og flestir vita gegndi hann ráðherraembætti á sínum tíma, var ráðherra yfir okkar öflugustu atvinnugrein og veit því alveg nákvæmlega hvað hann syngur.

Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að hér er ríkisstjórnin að fara Krýsuvíkurleið í því að reyna að sameina ráðuneyti og færa raunverulega lagasetningarvaldið inn í ráðuneytin til framkvæmdarvaldsins og embættismanna. Í þessari þingsályktunartillögu er hvergi getið um það til dæmis hvar hvaða stofnanir lendi og hvar eigi að bera niður. Hér stendur í markmiðum þessara breytinga að að mati ríkisstjórnarinnar eða hæstv. forsætisráðherra sem leggur þetta hérna fram sé markmiðið, með leyfi forseta, „að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa betur á og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Þannig er lagt til að eðlislík verkefni verði færð saman með það fyrir augum að ná sem mestum samlegðaráhrifum“.

Afskaplega samfylkingarlegt.

Hér er þetta markmið í þessari þingsályktunartillögu. Hvers vegna heldur þingmaðurinn að þetta sé ekki rökstutt neitt í greinargerðinni sem fylgir henni? Hvernig á að vera hægt að ná sem mestum samlegðaráhrifum og að eðlislík verkefni verði færð saman bara svona út í loftið? Hver er ástæðan fyrir því að þetta er ekki rökstutt hér? Er það ekki til þess að það sé raunverulega á valdi forsætisráðherra hvar hver stofnun lendir, hvernig stofnunum verður splittað upp o.s.frv.? (Forseti hringir.) Þingið er algjörlega áhrifalaust í því hver framtíð þessara stofnana verður (Forseti hringir.) vegna þess að það er ekkert minnst á þetta hér.