140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þá útreikninga og þær forsendur sem þessi þingsályktunartillaga byggir á get ég einungis vísað til orða hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hann sagði að þessar forsendur mætti finna í mörgum möppum sem hann geymdi á bak við skrifborðsstólinn sinn í ráðuneytinu. Við höfum ekki fengið aðgang að þessum möppum. Hæstv. ráðherra var aðeins örlátari þegar við fjölluðum á sínum tíma um Icesave-málið, við máttum þá skjótast yfir Austurvöll og fá að rýna í möppurnar, en hæstv. ráðherra hefur núna kosið að geyma möppurnar bak við skrifborðsstólinn sinn þannig að enginn komist í þær. (Gripið fram í.) Við vitum ekki um þær forsendur sem þarna liggja fyrir.

Við hljótum að ganga út frá því að þegar hæstv. forsætisráðherra hefur talið tímabært að koma með málið inn í þingið í þessum búningi liggi fyrir í öllum meginatriðum sú skipan sem á að vera annars vegar á ráðuneytunum og hins vegar þeim meginundirstofnunum sem undir þessi ráðuneyti eiga að heyra. Getur verið að þessum málum hafi ekki verið ráðið til lykta?

Hæstv. umhverfisráðherra sagði í gær þegar ég fór að spyrjast fyrir um grundvallarvísindastofnun okkar á sviði hafrannsókna, Hafrannsóknastofnunina sjálfa, sem veltir hér á annan milljarð króna á ári að ég væri að fiska eftir einhverjum upplýsingum sem ætti að færa mér í teskeiðum, eins og verið væri að tala um Hafrannsóknastofnun sem einhvers konar spónamat. Þetta er auðvitað ekki þannig. Við þurfum að fá mjög skýr svör um það annars vegar nákvæmlega hvernig ráðuneytin eiga að líta út og hins vegar hvernig stofnanaumhverfið á að líta út. Það er ekki nóg að segja að þetta verði einhvern veginn upplýst í nefndinni. Hæstv. forsætisráðherra átti að sjá til þess að um þetta væri skrifað í athugasemdum með tillögunni og skýra það síðan betur út í máli sínu hér í gær. Hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) gerði það ekki nægjanlega og við hljótum þess vegna að kalla eftir miklu skýrari svörum.