140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir á margan hátt athyglisverða ræðu. Hún setti fram nokkur sjónarmið sem ég held að sé ástæða til að vekja máls á, í fyrsta lagi að það fari mjög illa á því rétt undir lok kjörtímabils að ríkisstjórn fari í uppstokkun af þessu taginu. Hún færði fyrir því að mínu mati mjög frambærileg rök. Hún tók í raun undir málflutning hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem færði í sínu máli líka fram sambærileg rök. Þetta tel ég líka gild rök sem eigi tvímælalaust erindi inn í þessa umræðu. Hæstv. forsætisráðherra og þeir aðrir ráðherrar sem standa að málinu ættu að íhuga þau.

Hitt atriðið sem mér finnst líka skipta mjög miklu máli er það sem hv. þingmaður vék að, að á sínum tíma þegar miklar deilur höfðu staðið um upphafleg áform hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands var flutt breytingartillaga um að leita sátta sem ég hygg að hv. þingmaður hafi verið 1. flutningsmaður að. Þó að ég hafi ekki getað fellt mig við þá niðurstöðu var engu að síður niðurstaða meiri hluta Alþingis að fara þá leið að í stað þess að hæstv. forsætisráðherra hefði það mikla vald sem við mörg hver gagnrýndum þyrfti hæstv. forsætisráðherra, eftir að búið var að gera tillögu um tilteknar breytingar, að koma með málið fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu, ekki í formi lagabreytinga eins og áður hafði verið varðandi lögin um Stjórnarráð Íslands, og þar með tryggja aðkomu Alþingis að málinu.

Nú liggur þessi þingsályktunartillaga fyrir. Hún er hins vegar mjög efnisrýr og við getum ekki áttað okkur á því hvað hæstv. ríkisstjórn er að fara í veigamiklum atriðum.

Nú spyr ég hv. þingmann: Vakti það ekki einmitt fyrir tillögumönnum með því að leggja þetta fram að Alþingi gæti haft efnislega (Forseti hringir.) skoðun á málinu og rætt efnislega hvaða breytingar væri verið að leggja til með breytingum á fyrirkomulagi í (Forseti hringir.) Stjórnarráði Íslands?