140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, 1. flutningsmaður að þeirri sáttatillögu sem var lögð fram er Eygló Harðardóttir, sú er hér stendur var meðflutningsmaður ásamt Árna Þór Sigurðssyni og Margréti Tryggvadóttur. Sú tillaga var sett fram til að þessi sjónarmið næðu að einhverju leyti saman, þ.e. sjónarmið okkar sem vorum þess sinnis að það ætti að vera hlutverk framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnar að skipa ráðuneytum eins og það vald teldi heppilegast hverju sinni. Þá hafði ég ekki það hugmyndaflug að mönnum dytti í hug að gera miklar breytingar skömmu fyrir kosningar, það er svo ólógískt, heldur hélt ég að menn kæmu með eitthvert plan, einhvern stjórnarsáttmála, röðuðu svo ráðuneytunum og málaflokkunum upp eftir því plani og sýndu þannig sveigjanleika.

Svo eru sjónarmið þeirra sem sögðu: Þetta er eitthvert gríðarlegt valdaframsal. Ég er ekki sammála því, ég tel að framkvæmdarvaldið eigi að hafa þetta vald. Sjónarmið þeirra voru að hleypa þessu máli ekki í gegn, þingið ætti bara að sjá um að raða þessu upp.

Það verður að segjast að það er rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að þegar við lögðum fram þessa tillögu í september vakti fyrir okkur að þingið fengi greinargóðar upplýsingar um hvað stæði til. Það er eiginlega það sem sá hópur var mjög ósáttur við á sínum tíma, hann vildi ekki að framkvæmdarvaldið gerði eitthvað án þess að menn áttuðu sig á því.

Ég tek undir það að þegar svona mál koma fram þurfa þau að vera eins skýr og hægt er að hafa þau, enda hefur maður heyrt umræðuna hér ganga mikið út á það hvað þetta er óskýrt. Meginskoðun mín er sú að þetta mál sé því miður of seint fram komið en það getur vel verið að sumt af þessu sé gott.