140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili því sjónarmiði að það er mjög óskynsamlegt að koma með verulegar breytingar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins í bláendann á kjörtímabilinu. Ég hygg að fæstum dytti það í hug nema vegna þess að það eru einhverjar aðrar pólitískar ástæður. Það blasir við hverjum einasta manni sem fylgist með umræðunni og hefur fylgst með pólitísku umræðunni í landinu síðustu mánuðina að þessar innanflokkspólitísku ástæður í ríkisstjórninni valda því að þetta mál er komið fram núna. Það vitum við auðvitað öll.

Það sem mér finnst hins vegar skipta miklu máli er forsendan sem hv. þingmaður talaði um áðan, að það hefði vakað fyrir flutningsmönnum að þingsályktunartillögunni fylgdu greinargóðar upplýsingar um hvað stæði til, úr því að farin var sú leið að ríkisstjórnin yrði að koma með hugmyndir sínar um breytingar á Stjórnarráðinu inn í þingið í formi þingsályktunartillögu. Ella hefði ekki verið neinn tilgangur í að leggja fram lagabreytingu sem fæli í sér almenna viljayfirlýsingu og mjög almennar lýsingar um hvaða verkefni ættu að fara á milli ráðuneyta án þess að gerð væri frekari grein fyrir því.

Það sem er líka vont í þessu sambandi er að hæstv. ráðherrar hafa síðan svarað þessu þannig að þessar upplýsingar séu til, menn viti alveg hvað þeir ætli að gera og hvernig stofnanaumhverfið eigi að vera. Það er hægt að finna það í möppum á bak við ráðherrastólinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en það eru hins vegar upplýsingar sem ekki eru reiddar fram fyrir Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að sú þingnefnd sem fær þetta mál til meðhöndlunar muni kalla eftir því og kannski verði það upplýst á einhverju stigi. Þetta vekur mikla tortryggni og vekur meðal annars upp þær spurningar hvort málið sé ekki vísvitandi komið inn í þingið svona opið vegna þess að menn hafa ekki vald á málinu. Það er líklega ekki pólitískur meiri hluti fyrir því af hálfu stjórnarliða, þess vegna þarf mögulega að semja sig í gegnum það og þá sé gott að hafa það aðeins opnara (Forseti hringir.) en það ætti auðvitað að vera.