140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún koma víða við og eins og öll umræðan hefur verið eru menn eiginlega sammála um galla málsins, bæði varðandi tímasetninguna og eins varðandi það að þingsályktunartillagan sé óljós. Finnst hv. þingmanni ekki að sú þingsályktunartillaga sem við ræðum ætti að bera meira með sér, að það þurfi í raun að breyta lögunum um Stjórnarráðið aftur þannig að í þingsályktunartillögunni sem flutt er skuli vera tímasett greinargerð sem skipuleggi ferlið við breytingu á Stjórnarráðinu í þaula og teikni upp nýja skipan þannig að menn viti hvað þeir eru að ræða um? Einnig þyrftu að fylgja með upplýsingar um kostnað eða sparnað, hvað menn munu geta sparað, og svo nauðsynlegar lagabreytingar, hvort ekki sé ástæða til að breyta lögunum um Stjórnarráðið að þessu leyti. Það er ákveðinn tilgangur með þessari þingsályktunartillögu, sá að kynna þingið fyrir nýrri stjórnarskrá og almenningi og síðan geti stjórnarmeirihlutinn sem styður ríkisstjórnina samþykkt málið.

Svo er önnur spurning. Hér á að stofna nýtt ráðuneyti sem heitir auðlindaráðuneyti. Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því máli. Telur hann að til dæmis Hafrannsóknastofnun sem rannsakar og mælir sjávarauðlindina, Landsvirkjun sem á orkuauðlindirnar, Rarik og fleiri slíkar sem gæta að auðlindunum eigi að heyra undir auðlindaráðuneytið? Eða hvar eiga þær að eiga heima? Eiga þær heima undir viðkomandi atvinnuvegaráðuneyti? Eiga þær heima undir fjármálaráðuneytinu sem er til dæmis eigandi að Landsvirkjun?