140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki alveg sáttur við þetta svar af því að mér finnst það ekki fullnægjandi. Til hvers er þessi þingsályktunartillaga yfirleitt? Er hún ekki til að upplýsa stjórnarliða, almenning og sérstaklega stjórnsýsluna um það sem stendur fyrir dyrum? Mér finnst þessi tillaga ekki gera það. Hún er svo óljós og loðin og það eru svo mörg álitaefni, eins og með Landsvirkjun, undir hvað heyrir hún eiginlega? Hvað halda starfsmenn Landsvirkjunar núna og hvað með Hafrannsóknastofnun? Er þetta auðlindaráðuneytið eða hvar á þetta heima? Mér finnst að ríkisstjórninni beri skylda gagnvart Alþingi, stjórnarliðum og almenningi að útskýra hvað hún er að gera. Mér finnst allt í lagi að hún breyti, mér finnst það bara fínt. Eins og hv. þingmaður sagði finnst mér gott að hún breyti í byrjun kjörtímabilsins. En finnst ekki hv. þingmanni nauðsynlegt að það sé eitthvert kjöt á beinunum, að menn viti hvað þeir eru að samþykkja?