140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hélt að ég hefði svarað því áðan, bæði í andsvari við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að auðvitað þurfa svona tillögur að vera skýrar. Þessi er ekki skýr þannig að ég er alveg sammála þeirri gagnrýni. En gagnrýni mín byggist ekki aðallega á því, heldur tímasetningunni, hvenær málið er komið fram. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn hvers tíma eigi að geta gert svona breytingar ef hún telur þær skynsamlegar. Svo verður hún að bera ábyrgð á því í næstu kosningum þar á eftir.

Ég kýs að fara ekki í umræðu hér á efnislegum forsendum um það hvaða stofnanir eigi að heyra undir hvaða ráðuneyti. Það er önnur umræða. Ég nálgast þetta út frá tímasetningu af því að ég tel að framkvæmdarvald hvers tíma, ríkisstjórnin, eigi að skipa þessum málum sjálft. Ég lagði fram ásamt þremur öðrum þingmönnum sáttatillögu um að þingið kæmi að þessu og blessaði þetta. Þegar þingið á að koma að hlutunum og blessa málin þarf að vera skýrleiki í þeim. Þetta er ekki mjög skýrt mál. Ég er alveg sammála þeirri gagnrýni.