140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Hún sagði að sú aðferð að leggja fram þingsályktunartillögu um þessar breytingar væri í andstöðu við stjórnarskrána. Nú man ég ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi greitt því atkvæði þegar áðurnefnd breytingartillaga var borin upp á Alþingi og beri þess vegna ábyrgð á þessu. Er það þá þannig að hæstv. ráðherra hafi vitandi vits samþykkt breytingartillögu og þar með lagasetningu sem var í ósamræmi við stjórnarskrána að hennar mati? Ég er að vísu ósammála þessu sjónarmiði en ég vildi vekja athygli á þessu.

Í öðru lagi vísaði hæstv. ráðherra mjög til greiningarvinnu sem unnin hefði verið sem leiddi til þess að verið er að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þá vil ég spyrja: Var engin slík greiningarvinna unnin þegar farið var í að stofna efnahags- og viðskiptaráðuneytið? Telur hæstv. ráðherra að það hafi þá verið mistök á sínum tíma af hálfu ríkisstjórnarinnar að stofna þetta ráðuneyti sem nú er búið að starfa í um það bil tvö ár?

Hæstv. ráðherra vísaði til greiningarvinnu sem leggur til að ekki verði um að ræða sameiningu Seðlabankans (Forseti hringir.) og Fjármálaeftirlitsins og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er það tillaga hæstv. ráðherra að þetta fyrirkomulag verði óbreytt og að ekki verði um að ræða sameiningu þessara tveggja stofnana?