140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að hæstv. forsætisráðherra leiðrétti mig ef ég hef tekið rangt eftir. Ég gat ekki skilið orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hún teldi að það fyrirkomulag sem hér er verið að vinna eftir, þ.e. að hæstv. ráðherra þurfi að koma með þessar breytingarhugmyndir sínar inn í Alþingi í formi þingsályktunartillögu, sé í ósamræmi við stjórnarskrána. Hæstv. forsætisráðherra samþykkti breytingartillögu þar að lútandi, hæstv. forsætisráðherra samþykkti þessi lög þegar þau voru afgreidd frá Alþingi á sínum tíma og þá virðist sem hæstv. ráðherra hafi samþykkt þessi lög þrátt fyrir að hún hafi talið þau í ósamræmi við stjórnarskrána. Það er mjög alvarlegur hlutur.

Hæstv. ráðherra vísaði til þess að ekki yrðu kynntar frekari breytingar á stofnanaumhverfinu en það yrði lagt fyrir Alþingi. Hvenær má vænta þess að það verði gert? Það verður örugglega ekki gert á þessu þingi úr þessu, trúi ég, og þá er staðan orðin sú að við erum að gera breytingar á stjórnarskránni og ætlum síðan að gera verulegar breytingar á stofnanaumhverfinu og (Forseti hringir.) tengslum þess við Stjórnarráðið og það gerist þá einhvern tímann síðla á næsta hausti (Forseti hringir.) rétt fyrir lok kjörtímabilsins.