140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði það í framsöguræðu minni í gær að stjórnskipulega mundi Hafrannsóknastofnun heyra undir atvinnuvegaráðuneytið. Það er ekkert nýtt sem ég er að segja varðandi þann þátt.

Það er alveg skýrt í þessari greinargerð, þegar verið er að vitna í Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur tekið út undirbúning breytinganna og er niðurstaða stofnunarinnar varðandi bæði nýju ráðuneytin nær samhljóða, svohljóðandi.“

Síðan kemur tilvitnunin í Ríkisendurskoðun:

„[Á]kvörðunin var tekin að vel athuguðu máli. Markmið hennar voru skýr, einkum þau sem lutu að faglegum þáttum og bættri þjónustu við almenning …“ — o.s.frv.

Þetta er alveg skýrt og þegar farið er að fjalla um þessa liði þá er þar ekki verið að vitna í Ríkisendurskoðun heldur mikla og ítarlega vinnu og greiningu sem hefur farið fram á þeim áformum sem nú eru uppi. Þessi vinna, sérstaklega að því er varðar atvinnuvegaráðuneytið og umhverfisráðuneytið, hefur staðið nær samfleytt í tvö til þrjú ár. Það er náttúrlega byggt á gögnum og upplýsingum og samráði sem við höfum farið í gegnum í þessum málum.