140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir ræðuna áðan og yfirferð. Ég hygg að fram hafi komið hjá ráðherra tilvitnun í greiningu sem Gylfi Magnússon gerði. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum fylgir sú greining ekki með fyrst hún liggur fyrir? Hvers vegna er hún ekki með í þessari þingsályktunartillögu sem fylgiskjal í stað þess að verið sé að upplýsa um það í síðustu ræðu ef ég hef skilið málið rétt? Ég man ekki eftir að hafa heyrt ráðherra minnast á þetta þegar mælt var fyrir málinu. Það er svolítið sérstakt að vera að koma með slíkar upplýsingar á síðustu metrunum í stað þess að láta það bara fylgja með.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega þannig að eina leiðin til að styrkja ráðuneyti sé að sameina það við önnur ráðuneyti. Ef niðurstaðan verður sú eftir þetta að enn séu ráðuneytin veik og ekki nógu sterk til að ráða við verk sín á þá að halda áfram að sameina ráðuneyti?