140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki gerst. Ef menn telja að þetta sé fordæmisgildi að færa virkjunarkostina þar sem komu fram nýjar upplýsingar í biðflokk á meðan verið er að athuga þau vafaatriði sem komu upp, þá verð ég að svara spurningu hv. þingmanns neitandi. Samkvæmt lögunum áttu drögin að þingsályktunartillögu að fara í umsagnarferli. Ef við hefðum ekki ætlað að taka mark á þeim umsögnum sem komu inn, sem reyndust vera 225, af hverju í ósköpunum vorum við að setja það í lög að fara í þetta umsagnarferli? Þegar við fórum í gegnum umsagnirnar reyndust þar vera atriði sem við ráðherrarnir treystum okkur ekki til að líta fram hjá. Þess vegna flokkuðum við þessa virkjunarkosti í biðflokk (Forseti hringir.) af því að hann er til þess ætlaður á meðan svarað er spurningum og vafaatriðum sem upp koma í (Forseti hringir.) ferlinu.