140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar fyrst að minna á hvernig lög nr. 48/2011 eru byggð upp. Í þeim er bráðabirgðaákvæði sem segir til um að í fyrsta sinn sem þingsályktunartillagan er lögð fram fari ráðherrarnir yfir umsagnirnar. Það mun hins vegar ekki gerast við næstu tillögu, samkvæmt lögunum fer þá bara verkefnisstjórnin yfir umsagnirnar. Það er ekki gert ráð fyrir því að það fyrirkomulag að ráðherrarnir fari yfir umsagnirnar verði til frambúðar, það er bráðabirgðaákvæði.

Virðulegur forseti. Eru það pólitísk fingraför að taka tillit til umsagna sem koma fram í lögbundnu ferli? Hvers lags er þetta eiginlega? Við erum að vinna eftir lögum sem Alþingi Íslendinga setti sér. Við erum að byggja tillögu á margra ára góðri faglegri vinnu. Að kalla það pólitísk fingraför finnst mér ekki (Forseti hringir.) bjóðandi.