140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í raun ekki hægt að orða það öðruvísi en að hálfömurlegt sé að hlusta á hæstv. ráðherra reyna að hylma yfir það hversu pólitískt plagg þetta er orðið. Það blasir auðvitað við öllum sem þekkja eitthvað til þessa máls að pólitíkin er ráðandi í þessari niðurstöðu. Það er einhvern veginn þannig með þessa blessuðu hæstv. ríkisstjórn að það skal alltaf valin leið ófriðar, jafnvel þegar friður er í boði. Þetta höfum við séð í mörgum stórum málum. Hér er að koma fram eitt stærsta og mesta hagsmunamál þjóðarinnar, en þá er sama ferlið. Það er eins og ekki sé hægt að ná niðurstöðu, enda eru sjónarmiðin svo ólík innan stjórnarflokkanna í meginmálaflokkum að ásættanleg niðurstaða kemur aldrei út úr því, það verður alltaf einhver vitleysa.

Það voru góð markmið sem við settum okkur með því að fara í þessa vinnu á sínum tíma, en þau eru að litlu orðin núna. Vissulega má segja að sporin hafi hrætt þegar við urðum vör við hver þróunin varð í þessari vinnu. Þetta var í raun orðið fyrirsjáanlegt og endurspeglast í þeim langa tíma sem ríkisstjórnin hefur þurft til að koma málinu frá sér. Hér er um pólitísk hrossakaup að ræða þar sem verið er að reyna að halda lífi í ríkisstjórninni í þessu mikla ágreiningsmáli innan hennar. Það er mjög alvarlegt að það skuli vera niðurstaðan, mjög alvarlegt mál, vegna þess að við erum að tala um sennilega einhverja mestu hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Pólitísk fingraför eru þegar kemur að niðurröðun margra virkjunarkosta og það er líf ríkisstjórnarinnar sem hangir þar á spýtunni. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst því yfir í ræðum að þeir muni ekki styðja þessa ríkisstjórn ef farið verði til dæmis í virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Það var líka alveg augljóst á vinnubrögðum innan verkefnisstjórnarinnar þegar farið var að skipta út mannskap þar hvert stefndi. Þar byrjuðu í raun hin pólitísku afskipti. Með þeirri leynilegu atkvæðagreiðslu sem þar fór fram var leiðin lögð fyrir það sem koma skyldi.

Það er ekki mikill tími til að fara hér yfir í stuttri ræðu einstaka virkjunarkosti, við munum hafa meiri tíma til þess síðar. Það er auðvitað mjög margt sem þarf að skoða í þessu máli sem kemur hér fram á lokavikum þingsins þar sem mörg stór mál liggja undir og mér er til efs að það sé í raun skynsamlegt að reyna að ljúka málinu á þessu þingi. Ég held að það þurfi miklu meiri yfirlegu en svo að þessi tími dugi til þess.

Það er nauðsynlegt samt að nefna virkjunarkosti eins og í neðri hluta Þjórsár sem eru taldir einhverjir hagkvæmustu virkjunarkostir okkar og skipta í raun mjög miklu máli. Það blasir eiginlega við varðandi það mál að það eru svona hinir dæmigerðu tafaleikir náttúruverndarsinna, sem við þekkjum úr svo mörgum málum, sem verið er að leika þar. Fyrir liggur að ef framkvæmdir fara ekki af stað á næsta ári með ákveðna virkjunarkosti þarf að fara í nýtt umhverfismat. Hæstv. ráðherra umhverfismála er þegar búin að láta leika þarna ákveðna tafaleiki og tapaði því máli í Hæstarétti. Við sjáum hvernig verið er að leika þennan leika aftur núna. Slík vinnubrögð eru til í mörgum öðrum málum.

Það að fara að hengja þetta á laxagengd í Þjórsá stenst ekki rök eins og komið hefur fram hjá forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Veiðimálastofnunar. Veiðimálastofnun hefur rannsakað Þjórsá í þessu tilliti í 40 ár. Sagan er til. Landsvirkjun hefur varið miklu fé og tíma í það að rannsaka áhrifin og hvernig leysa megi þau mál og telur sig vera með þær lausnir. Þeir gefa ekki mikið fyrir rökstuðning þeirra sem nú koma og þyrla upp ryki út af þeim málum. Það er því alveg ljóst að með því að kynna sér málið betur hefðu ráðherrarnir einfaldlega getað komist að annarri niðurstöðu og hægt væri að hefja framkvæmdir á þessu svæði. Það er okkur svo gríðarlega mikilvægt í öllu tilliti að þetta fari af stað.

Það vekur líka athygli þegar skoðaðir eru margir þeir virkjunarkostir sem eru settir í verndunarflokk, hvernig atkvæðagreiðslan fór og hversu miklu þau atkvæði greidd með viðkomandi virkjunarkosti í verndunarflokk eru látin ráða og hægt er að nefna fullt af virkjunarkostum þar. Við getum tekið Norðlingaölduveitu sem fær sex atkvæði í nýtingarflokk og sex atkvæði í verndunarflokk. Hún lendir í verndunarflokk. Um Norðlingaölduveitu segir í þingsályktunartillögunni: Hún mundi fela „í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá.“ Nú hefur Landsvirkjun gefið það út að þeir muni halda rennsli í þessum fossum á þeim tíma sem einhverjir ferðamenn mögulega eru á svæðinu yfir sumartímann. Þeir mundu halda góðu sumarrennsli í fossunum. Það fara 0,2 ferkílómetrar af grónu landi undir vatn vegna þessarar virkjunar, ef virkjun skyldi kalla. Samkvæmt mati forstjóra Landsvirkjunar er þetta hagkvæmasti virkjunarkostur okkar í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti. Hann kostar svona helming miðað við hefðbundna vatnsaflsvirkjun á öðrum stöðum. Það er sagt að verið sé að vernda Þjórsárver. Það er svona álíka og banna einhverjar framkvæmdir úti á Seltjarnarnesi til að vernda eitthvað uppi í Heiðmörk. Það eru um tíu kílómetrar í loftlínu frá veitulóninu að Þjórsárverum. Ef þetta er skoðað stenst þetta ekki.

Við getum talað um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í Tungnárlóni, í Bjallavirkjun, í Hágönguvirkjunum og fleiri virkjunum. Það er í raun alveg óboðlegt hvernig farið er með þetta, sérstaklega miðað við það sem liggur hér undir.

Þá vil ég vitna í samræmda orkuáætlun sem kom út í nóvember síðastliðnum og fjallað var um hér á þingi núna eftir áramótin. Þar segir meðal annars að sé framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar fylgt megi leiða að því líkur að eftir árið 2025 geti þær virkjanir sem þar er reiknað með að ráðast í skilað þjóðarbúinu í skatttekjum og arði allt að 200 milljörðum á ári. Þetta segir í skýrslu þeirra sérfræðinga sem þessi vinstri ríkisstjórn skipaði til að gera — allt að 200 milljarðar á ári sem þar liggja undir. Er þá eitthvert vit í þessu?

Í þeirri framkvæmdaáætlun eru í raun bara inni virkjunarkostir sem verkefnisstjórnin setti í nýtingarflokk. Það er ekki verið að fara í mjög umdeilda virkjunarkosti samkvæmt þeirri niðurstöðu í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar.

Það er spurning hvort við erum að eyða tíma okkar rétt og forgangsraða rétt hér í þinginu þegar við erum að ræða þau mál sem eru á vettvangi okkar þegar svona stórir hagsmunir liggja undir.

Við erum að velta fyrir okkur hvort sjávarútvegurinn eigi að greiða 5 milljarða í auðlindagjald, 10 eða 15. En þarna erum við að tala um hagsmuni sem samkvæmt þessum skýrslum geta gefið okkur allt að 200 milljörðum á ári — á hverju ári og ár eftir ár. Hvernig fer þá með röksemdina fyrir því að tala um að það verði að geyma þetta handa komandi kynslóðum? Hvað er betra fyrir komandi kynslóðir en að fá svona tékka inn um lúguna hjá þjóðinni til að standa undir samfélagslegri þjónustu, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og annarri félagslegri þjónustu sem við viljum standa fyrir? Hvað er betra fyrir framtíð landsins, framtíðarkynslóðir, en að geta gengið að öflugu menntakerfi sem keyrt er áfram með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda?

Það liggur við að maður vilji, virðulegi forseti, tala um skemmdarverk, vegna þess að ekki er hægt að líkja þessu við neitt annað, þ.e. hvernig höndlað er með þetta fjöregg þjóðarinnar. Það er í raun algjört rugl hvernig núverandi stjórnarmeirihluti kemur fram í þessu máli sem svo mörgum öðrum. Þessu verður að breyta.

Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að þeir þingmenn ríkisstjórnarinnar sem vilja nálgast þetta mál af einhverri skynsemi muni ekki gera grundvallarbreytingar á þessu plaggi. Ætli þeir sér að afgreiða það á annað borð (Forseti hringir.) verður að gera grundvallarbreytingar á plagginu með hagsmuni þjóðarinnar í huga, með hagsmuni heimilanna og (Forseti hringir.) fjölskyldnanna í landinu í huga.