140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hin pólitísku afskipti skína í gegn í þessu ferli á seinni hluta málsins og þarf ekkert að ræða það frekar. Það blasir við öllum sem til mála þekkja og niðurstaðan sem okkur birtist hér er auðvitað hápólitísk. Það er búið að breyta það miklu í niðurstöðu þeirrar faglegu vinnu sem fór fram að slíkt blasir við öllum.

Umsagnarferlið er samkvæmt lögum. Það er ekki óeðlilegt að taka tillit til þeirra umsagna sem berast. Það er í hæsta máta eðlilegt. Hvað ætli hv. þingmenn — sem eru nú svona almennt á þeirri línu að við eigum að vernda meira en minna, eru í raun sáttir við þá niðurstöðu að við skulum vera með einn nýjan virkjunarkost í nýtingarflokki þegar kemur að vatnsaflsvirkjunum í landinu, einn nýjan virkjunarkost í nýtingarflokki — hefðu sagt ef hinn póllinn hefði verið tekinn og hlustað bara á röksemdir þeirra sem vildu færa úr biðflokki upp í nýtingarflokk, öll þau rök sem þar lágu fyrir hendi og við hefðum séð fjölga mjög í nýtingarflokki? Ætli hefði ekki verið rekið upp ramakvein.

Það er ekki verið að gæta einhvers sem við gætum kallað meðalhófs í þessari niðurstöðu. Það er alveg augljóst. Það eru örugglega rök fyrir sumum ákvörðunum þarna og menn geta fundið sér rök fyrir þeirri niðurstöðu sem þeir komast að en þau rök standast enga skoðun.

Þar komum við aftur að neðri hluta Þjórsár. (Forseti hringir.) Já, það hefði breytt mjög miklu vegna þess að staðan er einfaldlega þannig (Forseti hringir.) að neðri hluti Þjórsár er tilbúinn til þess að fara af stað með í framkvæmdir sem eru okkur (Forseti hringir.) nauðsynlegar.