140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hefði að mörgu leyti verið mjög eðlilegt ef niðurstaða verkefnisstjórnarinnar kæmi til vinnslu hjá þinginu. Ég held að við hljótum að nálgast þetta þannig í nefnd — ef einhver skynsemi fær að ráða för í málsmeðferð þar, sem ég hef fulla trú á í óformlegum viðræðum, þar eru þó innan dyra menn sem hafa svolítið aðra sýn á þetta — að menn gangi meira út frá því plaggi við vinnu sína. Við þurfum auðvitað að fara í þetta umsagnarferli og það verður mikil vinna. Þess vegna segi ég það og það er mín skoðun að best væri jafnvel fyrir okkur að stefna ekkert að því að afgreiða málið á þessu þingi.

Hvernig plaggið hefði átt að líta út? Í mínum huga er það einhvers konar málamiðlun. Það er ljóst að við þurfum að lenda þessu að lokum og ef það á að verða einhver sátt þarf að verða lending á milli þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja ganga lengra í að vernda. Það þurfa allir að gefa eftir. Hér er ekki boðið upp á það.

Ég hefði sætt mig við plagg sem hefði getað gert það að verkum að við hefðum getað sett af stað einhverja framkvæmdaröð sem er okkur svo nauðsynleg. Ég tala um þetta nánast eins og skemmdarverk vegna þess að það er verið að stöðva það ferli sem tengist einum mestu hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er verið að stöðva það ferli að við getum farið af stað. Við getum alveg ímyndað okkur hvaða áhrif það hefði ef við kæmumst af stað með einhverja framkvæmdaáætlun (Forseti hringir.) til ársins 2025 eins og Landsvirkjun gerir ráð fyrir.