140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og tek undir margt af því sem þar kom fram. Við stöndum frammi fyrir því alvarlega ástandi sem samfélag okkar er í eftir þetta hrun — mikið atvinnuleysi, mismunandi eftir greinum en áberandi mikið á þeim vettvangi sem er í verktakaiðnaði — og á sama tíma hafa blasað við okkur þeir virkjunarkostir og þær auðlindir sem landið býður upp á til að stíga mikilvæg skref í átt að því að rétta úr kútnum. Á það hefur ítrekað verið bent að sóknarfæri okkar liggi fyrst og fremst á þessum vettvangi og það með fullum rökum. Þær atvinnugreinar sem ganga vel í dag, eins og ferðaþjónusta o.fl., duga hreinlega ekki til að draga vagninn.

Mig langar að biðja þingmanninn að bregðast við þeirri spurningu hvernig hann meti efnahagsleg áhrif niðurstöðu ráðherranna í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Hvaða áhrif mun það hafa á samfélag okkar að okkur séu í raun allar bjargir bannaðar, samkvæmt þessari tillögu, að stíga þessi nauðsynlegu skref? Hvernig metur hann afleiðingar þess fyrir íslenskt samfélag?